Erlent

Kaupmannahöfn mun brenna í desember

Óli Tynes skrifar
Boðskapur mótmælendanna er skýr. Eldur, múrsteinar og barefli.
Boðskapur mótmælendanna er skýr. Eldur, múrsteinar og barefli.

Þúsundir öfgasinnaðra mótmælenda boða að Kaupmannahöfn muni brenna þegar umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin þar ellefta til átjánda desember.

Þetta fólk er nú að safna liði á netsíðum. Mögulegt er talið að um tíuþúsund mótmælendur komi til borgarinnar meðan á ráðstefnunni stendur.

Og það þarf ekki að velkjast í vafa um boðskapinn. Á plakötum og vefsíðum eru myndir af grímuklæddu fólki með bensínbrúsa í fanginu. Einnig eru tölvugerðar myndir af turni ráðhússins í Kaupmannahöfn í ljósum logum og einnig af brennandi McDonalds stað.

Danska lögreglan þegar þegar byrjuð að þjálfa sveitir sínar fyrir stórfellda götubardaga. Mogens Lauridsen lögregluforingi segir í samtali við danska blaðið BT að óljóst sé hversu margir mótmælendur komi til borgarinnar.

Hann vonar að þeir verði sem fæstir. Lauridsen bendir á að á fundi G-8 ríkjanna í Þýskalandi árið 2007, hafi mætt um 2000 mótmælendur. Það hafi verið í júní og Kaupmannahöfn í desember sé kannski ekki eins lokkandi.

Þess beri þó að gæta að þetta verði miklu stærri og umfangsmeiri ráðstefna. Um sexþúsund og fimmhundruð lögregluþjónar verða á vaktinni í Kaupmannahöfn desemberdagana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×