Viðskipti innlent

Skráð atvinnuleysi var 8,9% í mars

Skráð atvinnuleysi í mars 2009 var 8,9% eða að meðaltali 14.546 manns og eykst atvinnuleysi um 9,6% að meðaltali frá febrúar eða um 1.270 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.674 manns.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunnar sem birt hefur verið á vefsíðu stofnunarinnar. Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 14,3% en minnst á Vestfjörðum 2,3%.

Atvinnuleysi eykst um 12% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,7% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst jafnt meðal karla og kvenna eða um 9,6%. Atvinnuleysið er 10,3% meðal karla og 7,2% meðal kvenna.

Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá mars til apríl, m.a. vegna upphafs árstíðasveiflu. Í fyrra var atvinnuleysið svipað í báðum mánuðum og mældist 1%. Nú er hins vegar mun meiri samdráttur í hagkerfinu, gera má ráð fyrir litlum breytingum milli mánaða en vöxtur atvinnuleysis hefur minnkað talsvert undanfarnar vikur. Atvinnulausum í lok mars fjölgaði frá lokum febrúar um 1.337 en um 14.931 frá sama tíma árið 2008.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í mörgum atvinnugreinum einkum verslun og þjónustugreinum á næstu mánuðum, hins vegar mun væntanlega draga úr atvinnuleysi í mannvirkjagreinum svo og ferðaþjónustu vegna árstíðasveiflu.

Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er að atvinnuleysið í apríl 2009 muni breytast lítið og verða á bilinu 8,8%-9,3%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×