Viðskipti innlent

Sterk viðbrögð við lækkandi verðbólguvæntingum

Sterk viðbrögð á skuldabréfamarkaði í kjölfar á birtingu verðbólgutalna gærdagsins benda til þess að verðbólguvæntingar hafi lækkað talsvert.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta sé áframhald á þróun sem staðið hefur nær óslitið frá því verðbólgutölur janúarmánaðar voru birtar, en líkt og í gær voru þær tölur í lægri kanti miðað við spár og væntingar á markaði.

Fyrir birtingu verðbólgutalna í janúar var krafa á stysta flokki íbúðabréfa, rétt um 4% en þegar þetta er ritað er krafan komin í 6,3%. Þessi flokkur íbúðabréfa er næmastur fyrir breyttum verðbólguvæntingum vegna þess hve líftími hans er stuttur, en ámóta kröfuþróun má þó sjá í öllum flokkum íbúðabréfa.

Ríkisbréf mynda grunn óverðtryggða vaxtaferils á skuldabréfamarkaði og íbúðabréf Íbúðalánasjóðs gegna sambærilegu hlutverki meðal verðtryggðra skuldabréfa. Samanburður á þessum tveimur ferlum gefur síðan til kynna verðbólguvæntingar á markaði.

Á sama tíma og krafa íbúðabréfa hefur hækkað verulega hefur krafan á flestum flokkum ríkisbréfa lækkað. Verðbólguálag á markaði hefur því lækkað umtalsvert á undanförnum fimm vikum. Þannig var verðbólguálagið til 3 ára 6,3% fyrir ríflega mánuði síðan og til 6 ára var álagið 5%.

Í dag er verðbólguálagið hins vegar nánast það sama til skemmri og lengri tíma, á bilinu 2,7% - 2,8%








Fleiri fréttir

Sjá meira


×