Skoðun

Um hvað snýst hæfi?

Fyrrum forstjóri Fjármálaeftirlitsins sendi Rannsóknarnefnd Alþingis bréf í apríl síðastliðnum. Þar var vakin athygli á ummælum sem einn nefndarmaður hafði látið falla og fólu í sér afstöðu til grundvallaratriða sem til skoðunar eru hjá nefndinni, þ.e. að orsök bankahrunsins væri m.a. (á tungu frumheimildarinnar) „reckless complacency by the institutions that were in charge of regulating the industry and in charge of ensuring financial stability in the country". Þessi orð hafa ekki verið dregin til baka. Mun forstjórinn fyrrverandi hafa bent á að augljóslega væri nefndarmaðurinn búinn að gera upp hug sinn til grundvallaratriða. Forstjórinn gerði hins vegar alls ekki kröfu um að nefndarmaðurinn viki sæti eins og fullyrt er í fjölmiðlum að hann hafi gert!

Það „fjölmiðla-spinn" sem fór í gang vegna þessa máls er ekki traustvekjandi. Fyrst birtist einhvers konar fréttaleki og daginn eftir skrifa fjórir hagfræðingar, sem virðast hafa fengið sérstakar upplýsingar um málið, dagsblaðsgreinar til að túlka hæfisreglur þar sem ýmsu er snúið á hvolf.

Sérstakt hæfi snýr að því að sá sem fjallar um mál hafi ekki þau tengsl við efni máls eða málsaðila né að aðstæður séu þannig að draga megi hlutleysi í efa. Tilgangur reglnanna er m.a. að auka traust á því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt. Reynt er að koma í veg fyrir að þeir taki ákvarðanir sem eru fyrirfram líklegir til að gæta ekki hlutleysis, t.d. vegna þess að þeir hafa tjáð sig eindregið um málið sem fyrir þeim liggur eða sambærileg mál á persónulegan hátt. Tilvitnuð ummæli nefndarmannsins - ef rétt eru höfð eftir- eru augljóst dæmi um það síðastnefnda.

Hættan er sú að sá sem gefur slíkar yfirlýsingar muni, til að vernda orðspor sitt og fræðimannsheiður, hafa hagsmuni af því að niðurstaða máls verði sú sama og hann hefur áður látið í ljós. Gögn, röksemdir og huglæg matsatriði eru þá vegin og metin í ljósi eigin afstöðu en ekki á hlutlægan, faglegan og sanngjarnan hátt. Þess vegna er ekki tryggt að málefnaleg sjónarmið verði lögð til grundvallar. Á mannamáli kallast þetta tregðan til að éta ofan í sig, sem margir kannast vafalaust við.

Umfjöllun um bankahrunið hefur oft einkennst af sleggjudómum og takmörkuðum upplýsingum. Ályktanir í frábærri skýrslu Kaarlo Jännäri, sem ráðinn var af stjórnvöldum til að gera úttekt á eftirlits- og regluverkinu, hafa lítið ratað inn í umræðuna þótt þær ættu þar heima. Menn vekja frekar á sér athygli eða skora pólitísk stig með því að reiða hátt til höggs. Almennt skotleyfi virðist hafa verið gefið út á Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Minna hefur verið talað um það að kreppan er alþjóðleg, hefur sett banka um víða veröld á hausinn og á sér margþættar orsakir.

Rannsókn á bankahruninu er nauðsynlegt uppgjör þjóðarinnar við þau grimmu örlög sem hún glímir nú við. Til þess að eitthvað gagn verði af rannsókn þarf hún að byggjast á hlutlægu, faglegu og sanngjörnu mati á gögnum, aðstæðum og réttarreglum. Þeir sem rannsaka þurfa að vera hæfir til að sinna því mikilvæga starfi og við þurfum að skilja að það er engum greiði gerður með því að slá þar neitt af. „Sannleiksnefndin" á síst að vera undanskilin.

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×