Lífið

Átti að rannsaka framhjáhald

Hestamaðurinn knái er skráður sem einkaspæjari í símaskránni.
Hestamaðurinn knái er skráður sem einkaspæjari í símaskránni.

„Ég gerði þetta í einhverju flippi,“ segir Valdimar Bergstað sem er skráður sem einkaspæjari í símaskránni. Hann segist einu sinni hafa lent í því að hringt hafi verið í sig vegna verkefnis. „Það var kona sem var að forvitnast hvort ég gæti séð hvort maðurinn hennar væri að halda framhjá. Ég sagði bara við hana að ég væri ekki að stunda þetta,“ segir Valdimar sallarólegur. Þeir sem vilja tryggja sér þjónustu einkaspæjara ættu því að hugsa sig tvisvar um áður en þeir slá á þráðinn til hans.

Valdimar er sem stendur í námi á Hraðbraut en gæti vel hugsað sér að verða einkaspæjari í framtíðinni og feta þar í fótspor goðsagna á borð við Sherlock Holmes og Thomas Magnum úr þáttunum Magnum PI. „Ég er í skóla núna í augnablikinu og ég hugsa að þetta myndi ekki fara rosalega vel með því. En þetta er örugglega skemmtileg starfsgrein og það væri alveg örugglega hægt að græða á þessu.“ Hann bætir við að eitthvað sé um alvöru einkaspæjara á Íslandi og starfsgrundvöllurinn því vel fyrir hendi.

Valdimar er líklega þekktari sem hestamaður en einkaspæjari því hann er fjórfaldur heimsmeistari í hestaíþróttum og 22-faldur Íslandsmeistari. Hann vann þrenn verðlaun á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í Sviss og gengur því um með bros á vör þessa dagana. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.