Viðskipti innlent

Mikill áhugi á þrotabúi SPRON

Að minnsta kosti tíu fjármálafyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á að kaupa eignir úr þrotabúi SPRON. Formaður skilanefndar segir æskilegt að söluferlið taki stuttan tíma.

Frestur þeirra sem hafa áhuga á að gera tilboð í eignir SPRON rann út á hádegi en skilanefnd auglýsti eftir áhugasömum kaupendum í gær.

Tíu fjármálafyrirtæki hafa lýst yfir áhuga, flest innlend. Þar á meðal MP banki og VBS fjárfestingarbanki.

Hlynur Jónsson, formaður skilanefndar SPRON, segir að menn hafi meðal annars lýst yfir áhuga á að kaupa Netbanka SPROn, verbréfaþjónustu og útibú.

„Þarna erum við að tala um stærri eignirnar sem við erum að horfa á núna. Svo hefur fjöldi fyrirspurna borist í smærri eignir, allt niður í skrifborð og skrifborðsstóla. Það er ekki það sem við erum að skoða núna. Við erum að horfa á rekstrareiningar og starfsemi," segir Hlynur.

Skilanefndinni voru þó enn að berast fyrirspurnir rétt fyrir hádegi.

Hlynur segir æskilegt að ferlið allt taki stuttan tíma til að hámarka verðmæti. Hann segir ennfremur að sýndur áhugi á eignum SPRON gefi tilefni til að ætla að hægt verði að fá gott verð fyrir eignirnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×