Viðskipti innlent

Töluverð ásókn í innistæðubréf Seðlabankans

Í fyrsta uppboði sínu á innstæðubréfum í nokkra mánuði samþykkti Seðlabankinn tilboð að fjárhæð 25 milljarða kr. á meðalnafnvöxtunum 9,67% í fyrradag.

 

Í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í síðustu viku kom fram að hann myndi bjóða út innstæðubréf að andvirði 15-25 milljarða kr. í hverju uppboði á vöxtum á bilinu 9,5-10,0%. Eftirspurnin hefur því verið þónokkur í bréfin.

 

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni. Þar segir að til að geta borið saman vexti á viðskiptareikningum innlánsstofnana í Seðlabankanum (9,5%) og vextina í uppboðinu (meðalvextir 9,67%) verður að hafa í huga að vextir á viðskiptareikningunum eru einungis greiddir út í lok árs á meðan vextirnir af innstæðubréfunum eru greiddir út á endurkaupadegi (sem er 28 dögum eftir uppboðið), það gerir kaupanda innstæðubréfana því kleift að endurfjárfesta vöxtunum á 28 daga fresti.

 

Munurinn á vöxtum á innlánsreikningum og vöxtum á innstæðubréfum ætti því að dragast saman eftir því sem nær dregur áramótum. Á móti kemur að innstæður á viðskiptareikningum eru alltaf lausar til útborgunar á meðan fjármagnið er bundið til fjögurra vikna í senn í innstæðubréfunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×