Innlent

SPRON varaði ítrekað við

Bráðabirgðastjórn SPRON varaði viðskiptanefnd við 9. júní að ekki væri hægt að greiða laun starfsmanna SPRON þar sem lög tækju ekki til fyrirtækisins. Greiða átti út laun 1. júlí. Athugasemdin er til móttökustimpluð í viðskiptanefnd.

Hlynur Jónsson, formaður slitastjórnarinnar, hafði svo samband við aðstoðarmann viðskipta­ráðherra 22. júní og sagði að vegna slitameðferðar væri sú staða komin upp sem varað var við 9. júní. Hlynur hafði samband við lögfræðing hjá ráðuneytinu 25. júní og ítrekaði mikilvægi málsins. Haft var samband við slitastjórn 29. júní og sagt að lögum yrði ekki breytt. Daginn eftir, 30. júní, tilkynnti slitastjórnin hvernig væri fyrir þessu komið.

Sagt var frá því í fjölmiðlum á miðvikudag að réttarfarsnefnd hefði sent frá sér álit þar sem hún taldi að slitastjórn SPRON væri heimilt að greiða út laun. Hins vegar náðist ekki í alla nefndar­menn við gerð álitsins, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Slitastjórn hefur óskað eftir nánari skýringum réttarfarsnefndar.

Ástæða þess að SPRON getur ekki gengið frá launum án lagabreytinga, að mati slitastjórnar, er að það skapar skaðabótaábyrgð gagnvart öðrum kröfuhöfum. Hlynur segir líklegt að erlendir kröfuhafar myndu kæra það. Þeir hafi þegar stefnt SPRON og vilja að yfirtaka SPRON verði dæmd ólögmæt. „Þeir eru því til alls líklegir og við gefum þeim ekki vopn að óþörfu," segir Hlynur.

Ósvaldur Knudsen, einn talsmanna fyrrverandi starfsmanna SPRON, segir að hvort sem túlkun slitastjórnarinnar sé rétt eða röng, þá er líklegt að breyta þurfi lögunum.

„Ég skil ekki af hverju menn standa í hártogunum endalaust. Viðskiptaráðherra og formaður viðskiptanefndar hafa gefið í skyn að ef ekkert verður gert af hálfu slitastjórnarinnar verði lögum breytt. Ég skil ekki af hverju menn setja þetta ekki bara á dagskrá þingsins og reyna að fá flýtimeðferð á þessu," segir Ósvaldur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×