Viðskipti innlent

Skuldabréfaveltan 16 milljarðar á dag í ágúst

Heildarviðskipti með skuldabréf í kauphöllinni námu tæpum 322 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 16,1 milljarða veltu á dag. Þetta er mesta dagsvelta það sem af er ári.

Í yfirliti um júlí sem kauphöllin hefur sent frá sér segir að í júlí mánuði nam veltan 14,2 milljörðum á dag. Mest voru viðskipti með lengstu flokk ríkisbréfa, RIKB 19 0226 51,2 milljarðar og þá með RIKB 25 0612 47,4 milljarðar.

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 203,9 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 99,8 milljörðum. Heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa nam rúmum 1.340 milljörðum og hækkaði um 2,3% milli mánaða.

Í júlí mánuði var MP Banki með mestu hlutdeildina 33,0% (29,4% á árinu), Íslandsbanki með 30,9% (28,4% á árinu) og NBI með 15,5% (13% á árinu).

Heildarviðskipti með hlutabréf í júlí mánuði námu tæpum 2.817 milljónum kr. eða tæpum 141 milljónum á dag. Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í júlí mánuði tæpar 5.316 milljónir. Mest voru viðskipti með bréf Alfesca eða 1.576 milljónir kr. og með bréf Marel 563 milljónir kr.

Markaðsvirði skráðra félaga var 205 milljarðar í lok síðasta mánaðar og hækkaði um 7% á milli mánaða. Markaðsvirði bréfa Össurar nam rúmum 52 milljörðum og er það félag stærst að markaðsvirði skráðra félaga. Næst í stærð er Marel en markaðsvirði þess nemur rúmum 34 milljörðum og bréf Føroya Banki en markaðsvirði þess er rúmir 34 milljarðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×