Innlent

NIB ætti að standa með okkur

Fjármálaráðherra er ósáttur við fyrirhugaða vaxtahækkun Norræna fjárfestingarbankans á íslenskum lánum.
	fréttablaðið/hari
Fjármálaráðherra er ósáttur við fyrirhugaða vaxtahækkun Norræna fjárfestingarbankans á íslenskum lánum. fréttablaðið/hari

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að stjórnin hafi vonast til að Norræni fjárfestingabankinn (NIB) stæði með Íslendingum á erfiðum tímum. „Það hefði verið betra frekar en að gera lánskjör erfiðari, hvað þá að boða gjaldfellingu eða eitthvað slíkt.“

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra tók fyrirhugaða vaxtahækkun bankans á íslenskum lánum fyrir á fundi norrænna fjármálaráðherra í gær.

Fjármálaráðherra segir að stjórnin hafi haft vaxandi áhyggjur af áformum bankans og málinu verði haldið opnu.

Ergilegt sé að slíkt mál komi upp, ekki síst þar sem íslensku lánin hafi verið í skilum. „Það geta verið frávik á því en að uppistöðu eru þessi lán í fullum skilum. Við hefðum viljað að á þessum erfiðu tímum héldust lánskjör óbreytt. Þetta eru oftar en ekki gamal­gróin lánasambönd.“

Steingrímur segir að eðlilega sé farið með kröfur NIB í gömlu bankana. Stjórnin hafi fundað um málið með fulltrúum bankans og sent lögfræðiálit. Gæta verði jafnræðissjónarmiða við meðferð krafnanna og það hafi verið gert. „Meðferð krafnanna er í samræmi við lög og ekki hefði verið hægt að gera nokkuð annað.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×