Viðskipti innlent

Innlán í Sparisjóðinn Afl aukast um 3 milljarða

Myndin er á vefsíðu siglo.is.
Myndin er á vefsíðu siglo.is.

Í kjölfar bankahrunsins í fyrrahaust hefur Sparisjóðurinn Afl ,sem samanstendur af Sparisjóð Siglufjarðar og Sparisjóð Skagafjarðar, aukið innlán gífurlega. Á einu ári hafa innlánin aukist um 3 milljarða kr. og standa nú í ríflega 8 milljörðum kr.

Þetta kemur fram í viðtali vefsíðunnar siglo.is við Ólaf Jónsson hinn 38 ára gamla sparisjóðsstjóra Afls. Ólafur er Siglfirðingur en Siglufjörður og Skagafjörður eru aðalstarfssvæði sjóðsins.

Ólafur segir að framtíð sjóðsins sé mjög björt . „Auðvitað geta áframhaldandi neikvæðar horfur í efnahagsmálum skaðað sjóðinn enn frekar en komið er, eins og allar aðrar lánastofnanir. Þá geta breytingar á kvótakerfi með innköllun kvóta skaðað þau útlán sem við höfum í sjávarútvegi," segir Ólafur.

Á undanförnum árum hefur sjóðurinn komið með fjölda starfa til Siglufjarðar og má þar nefna iðngjaldaskráninguna og nú síðast störf fyrir Momentum.

Fram kemur í máli Ólafs að þrátt fyrir innlánaaukningu og bjarta framtíð hafi sparisjóðurinn ekki sloppið sérstaklega vel út úr kreppunni. „Við höfum þurft að leggja í varúð vegna útlána, en við áttum ekki hlutabréf, sem gerði það að verkum að sjóðurinn tapaði ekki á slíkum fjárfestingum," segir Ólafur.

„Útlán sjóðsins eru fyrst og fremst til einstaklinga, sjávarútvegs, bænda í Skagafirði og þjónustufyrirtækja."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×