Innlent

Fleiri leigjendur draga úr sveiflum

Á ráðstefnu norrænu ráðherranefndarinnar Gwillym Pryce segir að bankar þurfi að breyta viðskiptaháttum og leggja áherslu á siðlegar lánveitingar. Þeir eigi að huga að hag lántakenda til lengri tíma. Slíkt dragi úr sveiflum sem komi bönkunum líka til góða því með því dragi úr hættu á bankaáhlaupum. Fréttablaðið/Stefán
Á ráðstefnu norrænu ráðherranefndarinnar Gwillym Pryce segir að bankar þurfi að breyta viðskiptaháttum og leggja áherslu á siðlegar lánveitingar. Þeir eigi að huga að hag lántakenda til lengri tíma. Slíkt dragi úr sveiflum sem komi bönkunum líka til góða því með því dragi úr hættu á bankaáhlaupum. Fréttablaðið/Stefán

Aukið getur á verðsveiflur á fasteignamarkaði að meirihluti fólks búi í eigin húsnæði. Þetta kom fram í máli Gwilym Pryce, prófessors í hagfræði og félagsvísindum við háskólann í Glasgow á norrænni ráðstefnu um fasteignamarkaðinn sem fram fór í Reykjavík í gær.

Prófessor Gwilym Pryce hvatti til frekari rannsókna á kjörhlutfalli íbúðareigenda og leigjenda í hverju samfélagi. Hér eiga yfir 80 prósent eigið húsnæði. Pryce vísaði til dæmis til Bretlands þar sem yfir 70 prósent búa í eigin húsnæði og benti á að skuldsetning landsins í samhengi við landsframleiðslu væri mikil. Til samanburðar benti hann á að hlutfall íbúðareigenda í Þýskalandi væri 43 prósent og skuldsetningarhlutfallið mun lægra. Eftir því sem færri byggju í eigin húsnæði minnkaði næmi landsins gagnvart fjármálakreppunni og verðfalli eigna.

Þá bendir Pryce á að blönduð byggð misefnaðs fólks auki viðnám í efnahagskreppum. „Þegar íbúð er tekin eignarnámi hefur það áhrif á nærumhverfið. Í hverfum þar sem hinir efnaminni hafa safnast saman er hætt við dómínóáhrifum sem síður er hætta á í blandaðri byggð,“ segir hann.

„Núna, í kjölfar kreppu, er rétti tíminn til að spyrja stórra spurninga,“ segir hann og telur að þegar hagkerfið taki við sér á ný minnki áhugi fólks á að gera samfélagsbreytingar. Pryce segir eðlilegt að setja spurningarmerki við það hvort allir eigi að búa í eigin húsnæði. Tilhneiging sé til þess að þeir tekjulægstu festi kaup á fasteignum þegar aðgengi er best að lánsfjármagni, í miðjum eignabólum þegar verð er hátt. Sami hópur sé líklegri til að missa fótanna þegar herðir á dalnum og atvinnuleysi eykst. Þetta eitt auki á sveiflur og þjóðhagslegan kostnað.

Pryce nefndi dæmi um þrjá fasteignakaupendur. Sá fyrsti kaupir íbúð og selur ekki fyrr en að 40 árum liðnum þegar lán eru greidd upp. Annar kaupir þegar verð er lágt og selur aftur þegar verð er hátt og eltir á þennan hátt reglulegar sveiflur á fasteignamarkaði út tímann. Sá þriðji kaupir þegar verð er hátt og selur eða hrekst út af fasteignamarkaði þegar verð er lágt. Samkvæmt útreikningum Pryce, sem eiga við Bretland, hagnast sá fyrsti um sem nemur 16 milljónum króna og númer tvö um 32 milljónir meðan sá þriðji tapar sem nemur 56 milljónum króna. Af þessu segir Pryce mega sjá nauðsyn þess í rannsóknum að huga að tímasetningu fasteignakaupa. Það hafi ekki verið gert í nægilegum mæli til þessa.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×