Skoðun

Frjálslyndir gegn spillingu og braski

Karl V. Matthíasson skrifar
Frjálslyndi flokkurinn býður nú þjóðinni enn á ný ferska stefnu og markmið til að hrista upp í því fjórflokkakerfi sem því miður hefur setið allt of lengi með öll völd í landinu með afleiðingum sem þjóðin fær nú öll að súpa seiðið af. Frjálslyndi flokkurinn hefur hvatt þjóðina til þess að beina sjónum sínum að sameiginlegum auðæfum sínum í sjónum. Auðlindum hafsins og mikilvægi þeirra í tekju­öflun og atvinnulífi landsmanna.

VarnaðarorðAllt frá setningu gildandi laga og reglna um stjórn fiskveiða hefur Frjálslyndi flokkurinn lýst andstöðu við framkvæmd þeirra vegna þeirrar mismununar sem felst í henni. Og varnaðarorð frjálslyndra hafa reynst orð að sönnu. Ekki aðeins ábendingarnar um ranglætið við kvótakerfið heldur líka um þær alvarlegu afleiðingar sem kvótakerfið hefur haft fyrir fjármál þjóðarinnar. Og nú eftir hrunið hefur þeim fjölgað sem sjá að hlutur kvótakerfisins í því öllu er stór. Frjálslyndi flokkurinn hefur og mun áfram berjast af krafti með það að markmiði að breyta þessu kerfi. Því þarf að tryggja honum nægjanlegan þingstyrk svo hann komist til almennilegra áhrifa eftir næstu kosningar.

Frjálslyndir óttast ekkiNúverandi stjórnarflokkar hafa í stefnuskrám sínum fyrirheit um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu en því miður er þar meira um orð en efndir. Ekki einu sinni núna þegar þúsundir manna eru atvinnulausar hafa þeir þor og þrek til að hleypa trillum á sjóinn, þó ekki væri nema yfri blásumarið til frjálsra handfæraveiða. Hvað stoppar þá einföldu og sjálfsögðu réttlætisaðgerð? Af hverju vilja þeir koma í veg fyrir að fjöldinn allur af fólki geti róið til fiskjar til að brauðfæða fjölskyldur sínar. Það er með öllu óskiljanlegt, en Frjálslyndi flokkurinn er fús til þess að koma þeim til hjálpar í þessu efni og hefur þor og áræði til þess.

Lokaorð

Umræðan um sjávarútvegsmálin hefur ekki hlotið þann sess sem hefði átt að vera en segja má að þöggun hafi verið beitt með sama hætti og þegar ýmsar ábendingar komu fram um veikleika og blekkingar í útrásarævintýrinu. Þekktir fjölmiðlamenn vildu lítið sem ekkert fjalla um sjávarútvegsranglætið, sögðu að kvótakerfinu yrði ekki breytt, það væri komið til að vera.

En nú er hulunni svipt af ævintýrinu og krafa þjóðarinnar um „opnun" kerfisins svo hún fái að njóta auðlindar sinnar verður sífellt háværari. Undir þær kröfur tekur Frjálslyndi flokkurinn.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavík norður.






Skoðun

Sjá meira


×