Viðskipti innlent

Peningastefnunefnd var sammála um rök gegn vaxtalækkun

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands.
Nefndarmenn peningastefnunefndar Seðlabankans voru sammála um að veigamikil rök hnigu gegn lækkun stýrivaxta meðan gengi krónunnar væri jafnlágt og raun bar vitni á fundum nefndarinnar 11. og 12. ágúst. Þetta kemur fram í fundargerð sem birtist í dag á vef Seðlabankans.

Þótt þess sæjust engin skýr merki, að mati nefndarinnar, að fyrri lækkanir stýrivaxta hefðu haft veruleg áhrif á það að farið hefði verið í kringum gjaldeyrishöftin, fé safnaðist fyrir á gjaldeyrisreikningum eða á veikingu krónunnar almennt, væri samt sem áður ekki hægt að útiloka slík áhrif.

Ennfremur var nefndin þeirrar skoðunar að frekari lækkun vaxta kynni að stangast á við það markmið að hefja afnám gjaldeyrishafta fyrir 1. nóvember 2009, sérstaklega í ljósi þess hve millibankavextir eru lágir.

Þá ræddu nefndarmenn einnig að lágt gengi krónunnar styddi þrátt fyrir allt við enduruppbyggingu efnahagslífsins með því að auka eftirspurn eftir innlendri vöru og þjónustu og auka samkeppnishæfni útflutningsgeirans.

Nefndarmenn voru sammála um að forðast bæri að gera nokkuð sem gæti skapað efasemdir um ásetning hennar að stuðla að stöðugleika krónunnar og lítilli verðbólgu, sérstaklega í aðdraganda þess að gjaldeyrishöft verða afnumin. Því var haldið fram að þannig gæti peningastefnan best aukið tiltrú á efnahagslífið, sem er forsenda þess að gjaldeyrishöft verði afnumin. Til vaxtahækkana gæti komið af þessum sökum ef aðstæður kalla á slíkt.

Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að stýrivextir og innlánsvextir yrðu óbreyttir. Sú tillaga var samþykkt samhljóða.

Lesa má fundargerð peningastefnunefndar SÍ hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×