Viðskipti innlent

Minnkandi velta í smásöluverslun í ágúst

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 5,4% á föstu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 11,2% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðarbundnum þáttum nam samdráttur í veltu dagvöruverslana í ágúst 3,3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 17,5% á síðastliðnum 12 mánuðum.

 

Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Rannsóknarsetri versluanrinnar. Þar segir að sala áfengis minnkaði um 21,2% í ágúst miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 7,1% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi var 35,9% hærra í ágúst síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.

 

 

Fataverslun var 11,6% minni í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 16,1% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Í ágúst dróst fataverslun saman um 9% frá mánuðinum á undan á föstu verðlagi. Sumarútsölum virðist hafa vera lokið í ágúst því verð á fötum hækkaði um 6,1% frá mánuðinum á undan.

 

Velta skóverslunar minnkaði um 6,6% í ágúst á föstu verðlagi og jókst um 11,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði í ágúst um 4,6% á frá mánuðinum á undan.

 

Velta húsgagnaverslana var 47,4% minni í ágúst en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og 37,2% minni á breytilegu verðlagi. Í ágúst jókst húsgagnaverslun frá mánuðinum á undan um 16,5% á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum lækkaði í ágúst um 3% frá mánuðinum á undan.

 

Sala á raftækjum í ágúst dróst saman um 20,2% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og jókst um 11,4% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Á milli mánaðanna júlí og ágúst jókst raftækjasala um 42,7% á föstu verðlagi, líklega vegna útsala.

 

Athyglisvert er að sala á raftækjum jókst um 42,7% í ágúst frá mánuðinum á undan á föstu verðlagi. Ástæðuna má að einhverju leyti rekja til útsala á raftækjum í ágúst og önnur skýring gæti verið sú að vaxtabætur voru greiddar út í byrjun mánaðarins. Aukningu í húsgagnasölu má einnig rekja útsala í ágúst. Þó freistandi væri að telja að þessi söluaukning á raftækjum og húsgögnum í ágúst gefi vísbendingu um aukna einkaneyslu er þó líklegra að um sé að ræða árstíðabundna sveiflu á þessum vörutegunum.

 

Verslun með dagvöru, áfengi, föt og skó var áfram minni að magni til en í fyrra og árið þar áður eins og verið hefur flesta mánuði frá áramótum. Athyglisvert er að þó að verð á áfengi hafi hækkað um 9,4% í júní síðastliðnum virðist það ekki hafa haft teljandi áhrif á sölumagn áfengis þegar veltan hefur verið leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum eins og verslunarmannahelgi og fjölda söludaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×