Viðskipti innlent

Íslendingar kanna fjárfestingar í Hvíta - Rússlandi

Hópur íslenskra viðskiptamanna frá fimm fyrirtækjum var á ferð um Hvíta - Rússland í liðinni viku til að kanna fjárfestingarmöguleika þar í landi. Hópurinn var á vegum Útflutningsráðs en naut aðstoðar Viðskiptaráðs Minsk borgar í ferðinni.

Fyrirtækin sem hér um ræðir voru Iceland Seafood, Skinney-Þinganes, Loftleiðir (leiguflugsdeild Icelandair), MP-Banki og Kleros fjárfestingarfélag Ingólfs Skúlasonar í Moskvu.

Þorleifur Þór Jónsson forstöðumaður nýmarkaða hjá Útflutningsráði fór fyrir hópnum. Hann segir að um ánægjulega för hafi verið að ræða en menn voru einkum að kynna sér málin og hvað gæti verið í boði í Hvíta - Rússlandi.

„Það var ekki þannig að gerðir hafi verið viðskiptasamningar í þessari för en Ísland á þegar í nokkrum viðskiptum við Hvíta - Rússland," segir Þorleifur Þór. „Við seljum þeim meðal annars fisk sem þeir síðan fullvinna og selja áfram austur á bóginn."

Hvíta - Rússland, eins og Ísland, nýtur nú aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enda hefur landið ekki farið varhluta af fjármálakreppunni frekar en flest önnur lönd. Þorleifur Þór segir hinsvegar að allar aðstæður þar í landi hafi verið með miklum ágætum og eflaust hægt að finna þar góða fjárfestingarmöguleika í framtíðinni.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×