Viðskipti innlent

Nýja Kaupþing tekur upp viðskiptavakt fyrir ICEQ

ICEQ hefur gert samning við Nýja Kaupþing um viðskiptavakt á útgefnum hlutdeildarskírteinum sjóðsins fyrir eigin reikning frá og með miðvikudeginum 1. apríl 2009. Tilgangurinn með viðskiptavaktinni er að efla viðskipti með hlutdeildarskírteini sjóðsins í kauphöllinni.

Í tilkynningu segir að Nýja Kaupþing skuldbindi sig til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð að lágmarki 1000 hlutdeildarskírteini. Bankinn mun leitast við að hafa mun á kauptilboði og innlausnarvirði ICEQ eins lítinn og mögulegt er, eða að hámarki 1,5%. Bankinn skuldbindur sig einnig til þess að endurnýja tilboð sín í hlutdeildarskírteini ICEQ innan 10 mínútna ef útistandandi tilboðum er tekið.

Hámarksfjárhæð heildarviðskipta dag hvern sem baninn er skuldbundinn til að kaupa eða selja skal vera 30 þúsund hlutdeildarskírteini. ICEQ er verðbréfasjóður sem er ætlað að endurspegla eignasamsetningu OMXI6ICAP vísitölunnar sem kauphöllin reiknar.

Við þetta má bæta að ICEQ opnaði aftur í vikunni eftir að hafa verið stopp frá bankahruni s.l. haust. Við þetta féll andvirði sjóðsins um rúm 94% eða svipað og úrvalsvísitalan hefur hrunið á sama tímabili.

Sigþór Jónsson sjóðsstjóri ICEQ segir að þeir vilji halda þessum sjóð á lífi og hafi gert mikið til þess að svo geti orðið. Þeir hafi beðið lengi eftir að geta tekið sjóðinn inn aftur í viðskipti en ekki tekist fyrr en kauphöllin ákvað í upphafi vikunnar að núllstilla hlutabréf í SPRON.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×