Viðskipti innlent

Faxaflóahafnir: Gámaflutningar minnka um 35% í ár

Útlit er fyrir að gámaflutningar hjá Faxaflóahöfnum muni dragast saman um 35% í ár miðað við árið í fyrra. Er þessi samdráttur töluvert meiri en í flestum öðrum höfnum í Evrópu. Raunar er aðeins höfnin í Barcelóna með álíka mikinn samdrátt.

Fjallað er um málið á heimasíðu Faxaflóahafna. Þar segir að þegar litið er til vöruflutninga í tonnum talið þá blasir samdrátturinn við þannig að innflutningur hefur fallið verulega en útflutningur hefur eilítið aukist.

Þegar best lét , árið 2007, voru heildar vöruflutningar Faxaflóahafna liðlega 3 milljónir tonna. Innflutningur var um 2.1 milljónir tonna en útflutningur um 870 þúsund tonn. Á árinu 2008 höfðu heildar flutningar minnkað um 17% eða í tæpar 2.6 milljónir tonna. Innflutningur hafði minnkað um 28% eða í 1.6 milljóna tonna en útflutningur aukist um tæp 10% eða í 907 þúsund tonn.

Á árinu 2009 er ljóst að vöruskiptajöfnuður hefur verið hagstæður um nokkurt skeið en það merkir m.a. að útflutningstekjur eru meiri inn útgjöld af innflutningi. Þessa þróun má glöggt sjá í tekjum Faxaflóahafna af vörugjöldum þar sem tekjur af útflutningi eru samkvæmt áætlun en tekjufall fyrirtækisins af minnkandi innflutningi er verulegt og má reikna með að það verði um 20% á milli áranna 2008 og 2009.

Hvað innflutninginn varðar þá er mestur samdrátturinn í byggingarvöru og bifreiðainnflutningi, en það kemur eflaust engum á óvart. Hins vegar má einnig sjá fækkun vörutegunda í öðrum vöruflokkum. Af flutningum síðustu þriggja mánaða að dæma viriðist innflutningur nú vera nokkuð stöðug tonnatala á milli mánaða og spurning hvort einhverjum botni sé náð. Eflaust munu ýmis lögmál hafa þar áhrif svo sem gengi, kaupmáttur o.fl., en miðað við útlit næstu mánaða verður tæplega um aukningu að ræða, en í besta falli óbreytta stöðu.

„Hið ánægjulega tengist hins vegar útflutningi sem hefur farið vaxandi og auknu fiskmagni til hafnarinnar. Því blasir við að brýnast er að búa í haginn fyrir aukna framleiðslu og verðmætaaukningu sjávarafurða þannig að útflutningstekjur skili þjóðarbúinu og Faxaflóahöfnum auknum tekjum, segir í lok umfjöllunarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×