Viðskipti innlent

Black Sunshine endar sennilega hjá sérstökum sakskóknara

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar: skrifar

Fjármálaeftirlitið hefur enn til skoðunar málefni huldufélagsins Black Sunshine. Kaupþing flutti ónýt lánasöfn að fjárhæð 80 milljarða inn í félagið í stað þess að afskrifa tapið. Bankinn stofnaði fleiri félög í þessum tilgangi. Yfirgnæfandi líkur eru á að málið endi inni á borði hjá sérstökum sakskóknara.

Fréttastofa flutti fyrst fréttir af huldufélaginu Black Sunshine í byrjun mars. Félagið var stofnað í Lúxemborg og var í eigu sjálfseignarstofnunar. Ónýt lánasöfn Kaupþings, þar með talið undirmálslán á bandarískum húsnæðismarkaði, voru flutt inn í félagið og nam heildarfjárhæð þessara lána um 80 milljörðum íslenskra króna.

Tap Kaupþings á lánunum var því ekki afskrifað heldur stóð sem lán til félagsins Black sunshine. Eignir bankans voru því ofmetnar þar sem væntanlegt tap var ekki bókfært.

Heimildir fréttastofu herma að Black sunshine sé ekki eina félagið sem var stofnað af bankanum í þessum tilgangi. Félögin munu vera nokkur og eru öll talsvert minni en Black Sunshine. Lánasöfnin í þeim félögum eru flest með handónýtum veðum, s.s. hlutabréfum í gjaldþrota fyrirtækjum.

Umfjöllum um þessi mál er að finna í skýrslu sem PWC gerði um starfsemi Kaupþings fyrir bankahrunið. Skýrslan hefur legið inni hjá Fjármálaeftirlitinu frá því um áramót. Heimildir fréttastofu herma að málið sé enn statt þar. Það sé hinsvegar af þeirri stærðargráðu og það samofið hruninu að fátt komi í veg fyrir að það endi inni á borði hjá sérstökum saksóknara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×