Viðskipti innlent

Sjávarútvegurinn á góðri siglingu í kreppunni

Sjávarútvegur má nokkuð vel við una þegar litið er á umsvif útflutningsfyrirtækja landsins. Velta í fiskveiðum jókst um 11% að nafnvirði frá maí og júní í fyrra til sama tímabils í ár.

 

Þá jókst velta í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði, sem nær bæði yfir landvinnslu sjávarfangs og matvöruframleiðslu til innlendrar neyslu, um nærri 21% að nafnvirði.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að teknu tilliti til verðbólgu má því gróflega ætla að raunvirði veltu í sjávarútvegi hafi heldur aukist á milli ára en hitt. Framleiðsla málma jókst hins vegar aðeins lítillega á milli ára að krónutölu, og því minnkaði velta þar að raunvirði.

 

Aftur á móti virðast flugsamgöngur hafa gengið með ágætum á vordögum, en velta í þeim geira jókst um ríflega 30% í krónum talið á tímabilinu. Rekstur hótela og veitingahúsa virðist ekki hafa notið lágs gengis krónu með sama hætti og flugreksturinn, því aðeins varð lítilsháttar krónutöluaukning í þeim geira á sama tíma.



Samdráttur í innlendri eftirspurn undanfarið endurspeglast skýrt í tölum Hagstofu. Velta í bílasölu og tengdum greinum skrapp saman um nærri helming milli ára í krónum talið. Sömu sögu má segja af byggingastarfsemi og mannvirkjagerð.

 

Smásöluvelta var nánast óbreytt að krónu tölu í maí og júní frá sama tíma í fyrra, sem jafngildir ríflega 9% raunlækkun. Sams konar þróun átti sér stað í sérhæfðri þjónustu af ýmsu tagi. Þá skrapp velta í tómstunda-, menningar- og íþróttastarfsemi saman um 26% að krónutölu á milli ára.

 

Ofangreindar tölur endurspegla þau umskipti sem orðið hafa í hagkerfinu frá þensluskeiðinu um miðjan áratuginn. Líklegt er að geirar tengdir innlendri eftirspurn á borð við bílasölu, umboðs- og heildverslun og ýmsar greinar smásöluverslunar muni áfram eiga undir högg að sækja, en hagur útflutningsgreina gæti vænkast frekar á næstunni ef það gengur eftir sem sífellt fleiri spá erlendis: Að nú sé botninum náð í kreppunni á heimsvísu og að eftirspurn erlendis muni taka við sér á komandi ársfjórðungum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×