Viðskipti innlent

Býst við frekari hópuppsögnum á næstu mánuðum

Búast má við að á meðan rekstrarumhverfi fyrirtækja er jafn erfitt og nú er muni enn koma til hópuppsagna á næstu mánuðum. Á þetta við um fyrirtæki í byggingariðnaði sem og öðrum geirum atvinnulífsins.

Þetta er mat greiningardeildar Íslandsbanka. Í Morgunkorni greiningarinnar segir að á meðan vextir eru háir og aðgengi að fjármagni af skornum skammti verður rekstrarumhverfið erfitt auk þess sem kaupmáttur almennings hefur dregist verulega saman sem hefur áhrif á verkefnastöðu fyrirtækja og dregur úr eftirspurn eftir vörum þeirra og þjónustu.

Alls var 360 manns sagt upp í hópuppsögnum í júnímánuði í alls fjórum uppsögnum. Þetta er mikil fjölgun frá fyrri mánuði þegar hópuppsagnir náðu til 20 manns, en ekki hafa fleiri misst vinnuna í hópuppsögnum í einum mánuði það sem af er þessu ári.

Mestu munar um uppsagnir hjá verktakafyrirtækinu Ístak sem þurfti að segja upp 270 starfsmönnum sínum í mánuðinum. Af þessum fjölda voru 70 manns sem voru á tímabundnum ráðningarsamningi og nokkrir til viðbótar voru þegar á uppsagnarfresti hjá fyrirtækinu.

Fyrirsjáanlegur verkefnaskortur sem tilkominn er vegna verkloka margra stórra framkvæmda og niðurskurðar í opinberum framkvæmdum er ástæða þess að grípa þurfti til uppsagna nú en gríðarlega erfitt rekstrarumhverfi er raunveruleiki verktaka -og byggingarfyrirtækja um þessar mundir.

Þetta erfiða umhverfi byggingariðnaðarins kemur glögglega í ljós þegar tölur um hópuppsagnir, gjaldþrot, og atvinnuleysi eru skoðaðar nánar. 42% þeirra sem misst hafa vinnuna í hópuppsögnum á þessu ári störfuðu í byggingariðnaði, 37% þeirra fyrirtækja sem hafa orðið gjaldþrota á árinu eru fyrirtæki í byggingariðnaði og 20% þeirra sem voru án atvinnu í lok maí mánaðar störfuðu áður við mannvirkjagerð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×