Erlent

Mini fimmtugur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hálfrar aldar gömul hönnun hefur haldið sér í meginatriðum fram á þennan dag.
Hálfrar aldar gömul hönnun hefur haldið sér í meginatriðum fram á þennan dag.

Það var 8. maí 1959 sem fyrsta Austin Mini-bifreiðin rúllaði af færibandinu í verksmiðju í Cowley í Oxfordskíri. Þetta var tveimur árum eftir að hönnuðurinn Alec Issigonis skellti teikningum af bílnum á borðið hjá British Motor Corporation í Birmingham og hæstráðandi þar, sir Leonard Lord, sagði einfaldlega: „Smíðið kvikindið!" eða „Build the bloody thing!"

Þetta var gert og til að gera langa sögu stutta er sigurför þessa smávaxna en áreiðanlega grips ekki enn lokið. Bretar höfðu fundið verðugt svar við Alþýðubifreiðinni þýsku, Volkswagen Bjöllu sem allir áttu að hafa ráð á að eignast. Austin var ekki eina nafnið á Mini. Í Bandaríkjunum kallaðist hann Morris 850 og Mini Cooper var þekkt afbrigði sem hét í höfuðið á John Cooper sem reyndar var góðkunningi upphaflega hönnuðarins.

Það er óhætt að segja að Mini væri tiltölulega sparneytinn, 848 rúmsentimetra vélin í upphaflegu útgáfunni kreysti út 34 hestöfl og eyddi bókstaflega engu. Við lá að hægt væri að skipta um bensín einu sinni í mánuði. Kraftmeiri útgáfur komu með tímanum og bíllinn varð ódauðlegur í kvikmyndinni The Italian Job frá 1969. Svo ódauðlegur að nýjasta útgáfa hans var notuð í endurgerð myndarinnar árið 2003. Alec Issigonis var aðlaður fyrir framlag sitt til bresks bílaiðnaðar og hlaut nafnbótina sir árið 1969.

Bretar munu standa fyrir veglegum hátíðarhöldum á fimmtugsafmælinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×