Skoðun

Þegar rykið sest – kjarni REI-málsins

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson skrifar

Á undanförnum mánuðum hafa nokkrir aðilar séð ástæðu til að draga REI-málið svonefnda aftur fram í dagsljósið. Þetta hefur verið gert í tvenns konar tilgangi:

Stjórnmálafræðingur og fréttamenn sáu ástæðu til þess fyrir kosningar að velta fyrir sér hugsanlegum tengslum milli fjárstyrks FL til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006, og fyrirhugaðs samruna Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest, haustið 2007.

Aðrir spekingar hafa svo verið að rifja upp REI-málið í þeim augljósa tilgangi að viðhalda og skerpa á þeirri fjölmiðlagoðsögn að fyrirhugaður samruni áður nefndra fyrirtækja, haustið 2007, hafi verið hneyksli, og jafnvel mjög alvarleg mistök. Engan þátt átti þó samruni REI og Geysir Green Energy í bankahruninu ári síðar. En einhverjir fjölmiðlamenn kusu að reyna að tengja það saman.

Í smiðju áróðursmeistaraÍ stað þess að vinda sér í það að reyna að sanna eða afsanna samsæriskenningu um mútur, létu fjölmiðlar sér lynda að velta þeim möguleika á milli sín í eina viku eða svo, örfáum dögum fyrir síðustu alþingiskosningar. Þetta er eitt af mörgum – og sífellt fleiri – dæmum þess, hvernig sumir íslenskir fjölmiðlar virðast líta m.a. á það sem meginhlutverk sitt að hafa skoðanamyndandi áhrif á almenning – oft með dylgjum og almennum vangaveltum – í stað þess að leggja fyrst og fremst áherslu á að upplýsa og flytja fréttir af mikilvægum málefnum. Er þessi innrætingarárátta ef til vill skýringin á þverrandi trausti sem almenningur ber til íslenskra fjölmiðla eins og fram hefur komið í skoðanakönnunum?

Um vangaveltur hinna spekinganna er þess að geta að þar hefur ekkert nýtt verið dregið fram og hvergi bólar á röksemdum. Þvert á móti eru rifjaðar upp gamlar rangfærslur og hamrað á gildishlöðnum hugtökum á borð við REI-hneykslið, í trausti þess að almenningur trúi því á endanum sem hann heyrir nógu oft endurtekið. Og þá eru óupptaldar dylgjurnar, almennar vangaveltur í fjölmiðlum sem staðhæfa ekkert, en snúast um það eitt að tengja menn og málefni við neikvæða, gildishlaðna umfjöllun. Þetta heitir rógburður á kjarnyrtu, íslensku máli. Leiðaraspeki Morgunblaðsins

Í leiðara Morgunblaðsins þann 30. mars sl. er lýst sérstakri ánægju með orkuútrás Enex og Geysir Green Energy. Með hliðsjón af því hefði leiðarahöfundur mátt hafa í huga að Orkuveitan, Landsvirkjun og Geysir Green Energy, voru á sínum tíma aðaleigendur Enex, og að Geysir Green Energy og nokkur önnur fyrirtæki stóðu, ásamt Orkuveitunni, að stofnun sameiginlegs fyrirtækis sem skyldi hasla sér völl á sviði orkuframkvæmda erlendis.

En í sama leiðara víkur höfundur að REI-málinu, og þá er talað um „REI hneykslið, þar sem fólk fékk á tilfinninguna að gráðugustu útrásarvíkingarnir væru að reyna að læsa klónum í eigur almennings“.

Hér er lifandi komin sú fjölmiðlaumfjöllun sem ekkert rökstyður og ekkert staðfestir, en hefur þann eina tilgang, að viðhalda rangfærslum og fordómum. Eins og fyrri daginn er talað um REI-hneykslið án nokkurs rökstuðnings. Síðan kemur fullyrðing um það hvað „fólk fékk á tilfinninguna“ – eins og það komi REI-málinu eitthvað við. Og þegar leiðarahöfundurinn hefur falið sig á bak við „tilfinningar fólks“ er óhætt að draga upp ískyggilega, gildishlaðna mynd þar sem „gráðugustu úrrásarvíkingarnir [...] reyna að læsa klónum í eigur almennings“. Hinu pólitíska markmiði hefur verið náð, að viðhalda rangfærslum og fordómum um REI-málið, án þess að rökstyðja, upplýsa eða sanna nokkurn skapaðan hlut.

Aðrir REI-spekingar hafa svo verið ögn hugrakkari og herskárri. Þeir hafa hamrað á fyrirhugaðri „sölu á hluta eigna Orkuveitu Reykjavíkur“ og „afsali auðlinda Orkuveitu Reykjavíkur“. Í slíkum málflutningi er alltént eitthvað staðhæft þó staðhæfingarnar séu alrangar og hvergi bóli á minnstu viðleitni til að rökstyðja þær.

Mútukenningu hafnað

Vegna ummæla Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa og núverandi umhverfisráðherra, í aðdraganda þingkosninganna apríl sl. um fjárhagsstuðning FL til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006 og umfjöllunar um hugsanleg tengsl þess styrks við fyrirhugaða sameiningu REI og Geysis Green Energy í borgarstjóratíð minni í október 2007, tel ég rétt að taka fram eftirfarandi:

1. Ég hef aldrei setið í fjáröflunarnefnd Sjálfstæðisflokksins og aldrei komið að fjáröflun fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Aldrei verið beðinn um það og aldrei sóst eftir því.

2. Ég hafði ekki minnsta hugboð um þann styrk sem hér um ræðir fyrr en ég heyrði hans getið í fréttum í aprílmánuði sl.

3. Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllum um hugsanleg tengsl milli styrksins og fyrirhugaðrar sameiningar REI og Geysis Green Energy, rúmum níu mánuðum síðar, fór ég þess á leit í aprílmánuði sl. við Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar, að hún rannsakaði embættisverk mín er lúta að fyrrnefndri og fyrirhugaðri sameiningu, vegna aðdróttana um hugsanleg tengsl mín. Innri endurskoðun taldi ekki ástæðu til að fara yfir málið þar sem ekkert nýtt lægi fyrir í málinu og vísaði í því sambandi m.a. til niðurstöðu stýrihóps borgarráðs um REI-málið.

4. Hugmyndir um sameiningu REI og Geysis Green Energy voru ekki viðraðar við mig fyrr en á seinni helmingi ársins 2007.

5. Til eru skjalfastar heimildir fyrir því að í júní 2007 beitti ég mér eindregið gegn þeim áformum að Geysir Green Energy tækist að eignast allt að 70% í Hitaveitu Suðurnesja. Þá hafði verið ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar, að íslensk orkufyrirtæki fengju ekki að bjóða í hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Geysir Green Energy eignaðist að lokum 30% í fyrirtækinu. Það gerðist ekki vegna minnar viðleitni, heldur þrátt fyrir hana.

Öll framangreind atriði lágu ljós fyrir af minni hálfu þá apríldaga fyrir kosningar sem nokkrir af helstu fjölmiðlum landsins töngluðust á mútukenningunni, dag eftir dag, þar sem ég hefði þá átt að fara með eitt hlutverkið. En þrátt fyrir alla þá „umfjöllun“ sá aðeins einn fréttamaður ástæðu til að hafa samband við mig, fréttamaður hjá RÚV. Hann gætti þess auðvitað að hafa ekki eftir mér það sem mestu máli skipti og getið er hér að framan, enda líklegt að það hefði dregið úr tortryggninni.

2. Mannauður myndast

Allt frá því að íslenskir verkfræðingar fóru fyrst að huga að þeim möguleika að nýta jarðvarma til húshitunar, hefur safnast saman sífellt verðmætari sérþekking á þessu sviði hér á landi. Á kreppuárunum á fjórða áratugnum bjuggu landsmenn við dáðlausa vinstri stjórn sem kenndi sig við „vinnandi stéttir“ en hafði ekki önnur úrræði en innflutningshöft, skammtanir, ríkiseinokun og ranga gengisskráningu.

Á sama tíma nutu Reykvíkingar hins vegar góðs af samhentri, framtaksamri og framfarasinnaðri bæjarstjórn sjálfstæðismanna sem réðst í fyrstu stórvirkjunina hér á landi, Ljósafossvirkjun í Sogi, sem opnuð var haustið 1937. Framkvæmdir við virkjunina höfðu kallað á fjölda starfa í atvinnuleysinu og rafmagnsverð í Reykjavík varð nú einungis þriðjungur af því sem áður hafði verið. Sú staðreynd örvaði mjög atvinnulífið í bænum, skipti út kolaeldavélum fyrir rafmagnsvélar, dró úr kostnaðarsömum kolainnflutningi og útrýmdi á endanum reykmengun sem oft var umtalsverð í Reykjavík.

Þegar Ljósafossstöðin var komin í gagnið, í miðri kreppunni, sneru bæjaryfirvöld sér strax að fjármögnun næstu stórframkvæmda. Borgarstjórinn, Pétur Halldórsson, leitaði hófanna hjá þekktu, bresku fjármálafyrirtæki um lán til að hefja framkvæmdir við Hitaveitu Reykjavíkur, fyrstu almenningshitaveitu í heiminum. Bretarnir báðu um öll verkfræðileg gögn og mælingar vegna þessara furðuframkvæmda og létu meta íslensku áætlunina hjá virtri, breskri verkfræði- og ráðgjafarstofu. Niðurstaðan úr því mati varð sú að framkvæmdin var talin arðbær og lánshæf og lokið var lofsorði á vinnu, mælingar, útreikninga og áætlanir íslensku verkfræðinganna.

Okkar eigin saga er oft býsna lærdómsrík. Allt frá þessum tíma, eða í rúm sjötíu ár, hefur verðmæt sérþekking Hitaveitu Reykjavíkur og síðar Orkuveitu Reykjavíkur vaxið jafnt og þétt. Þar munar ekki minnst um kaupin á Nesjavöllum og þær djúpboranir eftir heitu vatni sem hófust í kjölfarið.

Við höfum viljað framfleyta okkar þekkingu

Vegna þeirrar sérþekkingar sem Hitaveitan og síðan Orkuveitan hafa búið yfir, hafa þessi fyrirtæki komið að ýmsum verkefnum á erlendri grund um langt árabil – ýmist að ráðgjöf eða með beinni þátttöku í framkvæmdum. Þessi umsvif hafa gefið af sér mismiklar og því miður oft óverulegar tekjur, ef nokkrar. Í flestum tilfellum hafa þau verið áhættufjárfesting og oftast haft kostnað í för með sér. Ekki er rétt að útiloka sóknarfæri á þessum vettvangi en á hinn bóginn er ljóst að möguleikarnir eru takamarkaðir. Verðmæta- og atvinnusköpun á þessu sviði á alþjóðlegum vettvangi er samt mikil og spennandi og fer augljóslega ört vaxandi.

Íslensk þekking á sviði vistvænnar orkunýtingar er því engin nýlunda. Það er heldur engin nýlunda að Hitaveitan og síðan Orkuveitan hafi starfað á erlendum vettvangi í samvinnu við önnur íslensk fyrirtæki, oft einkafyrirtæki, svo sem verkfræðistofur, verktakafyrirtæki og ráðgjafarfyrirtæki. Sú var t.d. tíðin að Hitaveita Reykjavíkur var aðili að fyrirtækinu Orknir hf. sem var í eigu ýmissa aðila og vann að vistvænni orkunýtingu á erlendri grund um árabil.

Orkuveita Reykjavíkur varð síðan einn af stofnendum Enex hf., árið 1997, sem var sameiginlegt útrásarfyrirtæki orkufyrirtækja, verkfræðistofa og fjárfesta. Sú ráðstöfun vakti á sínum tíma hverfandi athygli fjölmiðla og fráleitt slíkt fjölmiðlafár sem REI-málið tíu árum síðar. Enex sinnti fyrst og fremst verkefnum í Evrópu og Kína.

Seint á árinu 2006 stofnuðu Glitnir og íslenskir einkaaðilar orkuverktakafyrirtækið Geysir Green Energy. Þetta nýja fyrirtæki hafði uppi stór áform, hóf fljótlega að ásælast hluti í Enex og varð á skömmum tíma stærsti eigandi fyrirtækisins, keypti m.a. 24% hlut Landsvirkjunar í fyrirtækinu,

Þann 25. janúar 2007 samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samhljóða á fundi sínum, að fela forstjóra Orkuveitunnar og framkvæmdastjóra lögfræðisviðs fyrirtækisins að vinna tillögur til stefnumótunar, um það hvernig Orkuveita Reykjavíkur kæmi að miðlun íslenskrar þekkingar varðandi endurnýjanlegrar orku í framtíðinni, bæði hérlendis og erlendis.

Grunnhugmyndin með stofnun REI

Þrátt fyrir aðkomu embættismanna að þessari stefnumótun átti hún sín pólitísku markmið sem rædd höfðu verið í stjórninni. Þau voru einkum eftirfarandi:

1. Að nýta sem best þá miklu og sívaxandi sérfræðiþekkingu á sviði vistvænnar orkunýtingar sem Orkuveitan býr yfir, og sem síaukin eftirspurn er eftir víða um heim – Orkuveitunni og borgarbúum til hagsbóta.

2. Að gera skýran greinarmun á og aðskilja Orkuveitu Reykjavíkur sem veitustofnun í almannaeigu, frá öðrum óhefðbundnari verkefnum, s.s. áhættuverkefnum á erlendri grund.

3. Að firra Orkuveituna ábyrgð og áhættu með því að koma þeim umsvifum og verkefnum sem ekki heyra undir grunnstarfsemi Orkuveitunnar í sérstakt félag með takmarkaðri ábyrgð.

Allir þeir stjórnmálamenn og embættismenn sem að málinu komu töldu að með þessum markmiðum væri með ábyrgum hætti verið að slá skjaldborg um Orkuveituna sem mikilvæga þjónustustofnun í almenningseigu. Þau umsvif á erlendri grund sem fyrirtækið hafði áður komið að fengju jafnframt eðlilegri starfsskilyrði á alþjóðlegum markaði, óháð rekstri og eignum tengdum grunnstarfsemi Orkuveitunnar. Enginn borgarfulltrúi sá ástæðu til að andmæla þessum markmiðum.

REI stofnað

Á stjórnarfundi Orkuveitunnar 7. mars 2007 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum (ein hjáseta) að stofna hlutafélagið Reykjavík Energy Invest, til að halda utan um og annast verkefni Orkuveitunnar á erlendri grund. Jafnframt var samþykkt að félagið hefði sérstakan fjárhag og stjórn.

Til félagsins var lagt hlutafé Orkuveitunnar í Enex og Enex Kína sem og verkefni sem Orkuveitan stóð að erlendis. Þá var samþykkt að Orkuveitan legði auk þess til hlutafé, allt að tveimur milljörðum króna, er nýta skyldi til þátttöku í verkefnum með öðrum aðilum sem leggja til tækniþekkingu erlendis, og til fjárfestinga í erlendum, vistvænum orkufyrirtækjum.

Með stofnun REI var nú loku fyrir það skotið að Orkuveitan tæki lengur beinan þátt í útrásarverkefnum sem oft geta verið áhættusöm. Orkuveitan var þar með firrt þeirri áhættu og ábyrgð sem slíkum verkefnum fylgir og henni eingöngu ætlað að sinna hefðbundinni grunnþjónustu við almenning.

Þá er athyglisvert að í stofnsamþykktinni frá 7. mars er strax gert ráð fyrir að REI vinni að verkefnum í samvinnu við önnur fyrirtæki enda var töluverður hluti hlutafjárins bundinn í öðrum félögum. Þá var sjóður félagsins einn og sér ekki til stórra fjárfestinga.

Fyrirhuguð sameining REI og Geysis Green EnergyEins og fram kom hér að framan voru hugmyndir um sameiningu REI og Geysis Green Energy ekki viðraðar við mig fyrr en komið var fram yfir mitt ár 2007. Forsvarsmenn félaganna hittust 20. september 2007 og ræddu hugsanlega sameiningu. Þeir sem að málinu komu töldu einsýnt að slík sameining væri í fullu samræmi við stofnsamþykktir stjórnar Orkuveitunnar frá 7. mars. Ákveðið var að halda ferlinu áfram og stjórnarformenn félaganna leiddu viðræður sem lögðu grunn að þeim þáttum er lutu að verðmætamati félaganna og hlutafjáraukningu. Eins og alþjóð veit gekk sameiningin ekki eftir og stjórn og eigendafundur Orkuveitunnar ákvað síðan að afturkalla allar ákvarðanir er lutu að fyrirhugaðri sameiningu. Nokkrar lífseigar rangfærslurÞað er óvinnandi verk að elta ólar við allar þær rangfærslur sem boðið hefur verið upp á í REI-málinu. Í „upprifjunum“ þessa máls undanfarna mánuði hefur þó helst borið á fullyrðingum um það að REI væri örugglega orðið gjaldþrota núna með tilheyrandi fjárhagstjóni fyrir Orkuveituna, enda séu gamli Glitnir og FL Group, sem stóðu að mestu á bak við Geysir Green Energy, að mestu horfin af sjónarsviðinu. GGE virðist þó enn lifa þokkalegu lífi í dag eins og fréttir bera með sér. Hluti OR í REI hefði ekki orðið fyrir neinum skaða vegna bankahrunsins, enda enginn sýnt fram á það. Það er einnig klassísk bábilja að með sameiningunni hefðu menn verið selja „stóran hluta úr Orkuveitu Reykjavíkur“ eða að selja „auðlindir Orkuveitunnar og almennings“. Og loks hefur það verið lífseig firra að „einkaréttarklásúla“ samningsuppkastsins hefði valdið Orkuveitunni ómældu fjárhagslegu tjóni. Fjárhagsstaða REI og bankahrun

Hefði sameiningin gengið eftir hefði orðið til öflugt íslenskt þekkingarfyrirtæki á sviði jarðvarmavirkjana, en í dag virðist framboð erlendra fjárárfestingarfyrirtækja einna helst beinast að slíkum fyrirtækjum. Þó er ljóst að í dag eru aðstæður þeirra fyrirtækja sem vilja hyggja að byggingu jarðvarmafyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis, erfiðari en oft áður.

Ein af forsendum sameiningarinnar kvað á um að hið sameiginlega félag færi á alþjóðlegan hlutabréfamarkað í fyrsta lagi árið 2009. Hlutur Orkuveitunnar átti samkvæmt samningsuppkasti að vera sex milljarðar í peningum og eignum REI, m.a. Enex, um níu milljarðar með hlut Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja, og tíu milljarðar í óefnislegum framlögum á borð við sérþekkingu og vörumerki.

Frá þeim tíma sem liðinn er frá því sameiningin átti að eiga sér stað er ekki með neinum rökum hægt að staðhæfa að sameining félaganna hefði valdið REI/OR fjárhagslegum skakkaföllum, þótt bankahrunið hefði vissulega haft áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækisins eins og á við um nánast öll íslensk fyrirtæki í dag.

Ef einstaka hluthafar í félaginu yrðu gjaldþrota eða færu í greiðsluþrot færi hlutur þeirra í félaginu til gjaldþrotabúsins eða til meðferðar lánardrottna. Eignarhluturinn væri þá seldur til annarra hluthafa eða nýrra aðila eftir því sem verkast vildi.

Gjaldþrot einstakra hluthafa í REI ættu að öllu jöfnu að hafa óveruleg áhrif á starfsemi félagsins eða fjárhagsstöðu annarra hluthafa, enda ætti öllum að vera ljóst að hið sameinaða fyrirtæki ábyrgðist ekki skuldir þeirra aðila sem að stofnuninni stóðu.

Orkuveita og auðlindir til sölu?

Sú staðhæfing að með fyrirhugaðri sameiningu félaganna hefði borgarstjórn selt hluta af Orkuveitunni eða jafnvel auðlindum almennings, er vart svaraverð. Engir þættir grunnstarfsemi Orkuveitunnar komu á nokkurn hátt til álita þegar rætt var um hugsanlega sameiningu REI og Geysis Green Energy. Allar eigur REI og Orkuveitunnar héldu fullu verðgildi sínu í hinu fyrirhugaða sameinaða félagi. Fyrir lá samkomulag eigenda um að allar breytingar á samþykktum þyrftu samþykki þriggja fjórðu hluta eigenda.

Að sjálfsögðu stóð aldrei til að einkavæða Orkuveituna og ekkert í þessu ferli gaf tilefni til að draga slíkar ályktanir. Undirritaður hefur allt frá því hann varð borgarfulltrúi árið 1982 lýst því yfir að Hitaveita, Rafmagnsveita og Vatnsveita og síðar Orkuveita Reykjavíkur yrðu alls ekki einkavædd.

Mikilvægasta viðfangsefni Orkuveitunnar er að tryggja Reykvíkingum nauðsynlegt öryggi í grundvallarþjónustu fyrirtækisins, sem er að útvega viðskiptavinum sínum rafmagn, heitt og kalt vatn á hagstæðu verði. Þess vegna finnst mér þessar fullyrðingar nokkuð sérkennilegar, þar sem ég hef ávallt barist fyrir því að Orkuveitan og orkulindir Reykvíkinga yrðu ávallt í eigu okkar Reykvíkinga. Í mínum huga hefur aldrei staðið til að einkavæða Orkuveituna. Ef einhverjir stjórnmálaandstæðingar mínir þurfa að leggjast svo lágt að fullyrða slíkt um mig, þá verði þeim að góðu.

Var „einkaréttarklásúlan“ afleikur?

Því hefur oft verið haldið fram að fulltrúar REI og Orkuveitunnar hafi samið af sér með „einkaréttarklásúlu“ samningsins sem þá hafi valdið Orkuveitunni miklum búsifjum og gert hana að viljalausu verkfæri auðjöfra. Skoðum málið.

Í samningnum var gert ráð fyrir að Orkuveitan legði vörumerki sitt að mörkum og jafnframt sérþekkingu til hins nýja félags næstu tuttugu árin. Auk þess var kveðið á um að Orkuveitan beindi öllum verkefnum sínum utan Íslands til REI á þessu tímabili. Þetta framlag Orkuveitunnar og einkaréttur hins nýja félags á verkefnum sem henni byðust erlendis var metið á tíu milljarða. Auk þess var kveðið skýrt á um það í samningnum að Orkuveitan fengi að sjálfsögðu fulla greiðslu í hverju tilfelli fyrir sig fyrir þá sérfræðiaðstoð sem hún innti af hendi fyrir hið nýja félag.

Stofnun REI var í fullu samræmi við þau markmið sem stjórn Orkuveitunnar og borgarstjórn setti sér með stofnun REI þann 7. mars 2007, þ.e. að nýta betur sérþekkingu Orkuveitunnar við margvísleg erlend verkefni, en halda henni jafnframt frá beinni þátttöku í erlendum áhættuverkefnum. Það segir sig svo sjálft að Orkuveitan, sem væri stór aðili að útrásarfyrirtæki, myndi beina erlendum verkefnum sínum til þess en sjálf ekki taka neina áhættu.

Ef hið nýja félag hefði hins vegar ekki áhuga á slíkum erlendum verkefnum gæti Orkuveitan hæglega samið við önnur félög um erlendar orkuframkvæmdir enda stóð aldrei til að Orkuveitan sjálf væri beinn þátttakandi í slíkum verkefnum. Enginn hefur hingað til fært rök fyrir því að þessi samningsákvæði hefðu valdið Orkuveitunni tjóni. Hún afsalar sér að vísu beinni þátttöku í erlendum virkjunarframkvæmdum, en til þess var leikurinn einmitt gerður í upphafi.

Ávallt staðið vörð um Orkuveituna

Lengi mætti halda áfram að tína til rangfærslur, misskilning og sleggjudóma sem sérstaklega ákveðinn fjölmiðill er fyrir löngu búin að gera að „almannarómi“ í REI-málinu.

Það eru í raun hrein öfugmæli að því skuli haldið fram að fyrir m.a. tilstuðlan mína væri verið að „selja hluta af eigum Orkuveitunnar“ eða að „afsala auðlindum hennar“ í hendur auðmanna, því líklega er leitun að þeim borgarfulltrúa sem oftar hefur heitið því að standa vörð um grunnstarfsemi Orkuveitunnar sem almenningseign. Og við það hef ég staðið.

Það er hins vegar ekki heiglum hent að kljást við fjölmiðlaumfjöllun sem tekur upphrópanir, æsifréttir og pólitíska sérhagsmuni fram yfir yfirvegaða afstöðu og þá „sérvisku“ Ara fróða – að hafa það sem sannara reynist

Sú fjölmiðlaumfjöllun sem ég gerði að umtalsefni í upphafi þessa máls kann að þjóna pólitískum hagsmunum einstakra aðila sem telja sig þurfa að ryðja öðrum úr vegi – með góðu eða illu, réttu eða röngu. En hún er jafn lítilmótleg og hún er ómálefnaleg. Og á endanum vegur hún að rótum siðaðs samfélags – rótum skynseminnar, sanngirninnar og lýðræðislegra stjórnarhátta.

Þegar rykið er sest er líklegt að rifjað verði upp hlutverk þeirra einstaklinga, sem hæst létu í umræðunni um REI og Orkuveitu Reykjavíkur á sínum tíma, í borgarstjórn og fjölmiðlum. Ljóst er að allir þátttakendur í þessu svokallaða REI-máli munu leggja sig fram um að skýra frá þessu sérstaka máli á afar skilmerkilegan hátt. Undirritaður ætlar ekki að þessu sinni að rifja upp framgöngu einstakra aðila í þessu máli, en mun gera það ef tilefni gefst.

Höfundur er forseti borgarstjórnar.




Skoðun

Sjá meira


×