Viðskipti innlent

Eigendur Iceland Express óttast skekkta samkeppnisstöðu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Matthías Imsland vill að lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli verði lögð niður tímabundið. Mynd/ GVA.
Matthías Imsland vill að lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli verði lögð niður tímabundið. Mynd/ GVA.
Iceland Express mun standa af sér óveðurstorminn í efnahagslífinu, en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa miklar áhyggjur af því ef ríkið hyggst afskrifa skuldir samkeppnisaðilans. Þetta segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.

„Við höfum miklar áhyggjur af því að að ríkið ætli að skekkja samkeppnisstöðuna á þessum markaði með því að fella niður skuldir Icelandair. Það er alltaf erfitt fyrir aðila á markaði að keppa og allir að reyna að gera sitt besta, en svo kemur eitthvað inngrip," segir Matthías í samtali við fréttastofu. Hann segir að stjórnendur Iceland Express hafi sent bréf til allra ráðuneyta og boðist til að ræða þessi mál við stjórnvöld.

Matthías segir að næstu mánuðir framundan verði mjög góðir vegna þess að erlendum ferðamönnum fjölgi sífellt. Meðal sætanýting sé betri en hún hafi verið þrátt fyrir að fyrirtækið hafi dregið úr framboði . Matthías segir að það gangi vel að kynna landið en, Ísland eigi í samkeppni við mörg önnur ríki um ferðamenn.

Matthías segir mikilvægt að ríkið grípi til aðgerða til að efla enn frekar ferðamannaiðnaðinn á Íslandi. „Eitt af því sem ég myndi vilja velta upp er hvort við myndum ekki hafa ókeypis lendingargjöld í Keflavík í tvö ár. Þetta er það sem ríkin í kringum okkur eru að gera," segir Matthías, sem telur jafnframt að ríkið þurfi að koma að markaðssetningu í ferðaþjónustu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×