Viðskipti innlent

Stýrivaxtalækkun háð aðgerðum í ríkisfjármálum

Í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans, sem birt var í síðustu viku, er að finna setningu sem greining Kaupþings telur afgerandi við næstu stýrivaxtaákvörðun. Setningin hljóðar svo: „Lækkun stýrivaxta getur þó aðeins komið til hafi trúverðug áætlun um aðgerðir stjórnvalda varðandi fjármálastefnuna litið dagsins ljós."

Þetta er lykilsetning í fundargerðinni og skiptir miklu máli að mati greiningarinnar að því er segir í Markaðspunktum hennar.

„ Greiningardeild telur athyglisvert að þessari setningu skuli hafa verið sleppt í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar á vaxtaákvörðunardeginum og veltir því fyrir sér hvort henni hafi jafnvel verið bætt inn í fundargerðina eftir á," segir í punktunum. „Eftir að sendifulltrúi IMF lýsti því yfir opinberlega að ekki væri svigrúm til frekari vaxtalækkana...Með þessari setningu í fundargerðinni er nú formlega búið að hnýta saman gagnrýni IMF og Seðlabankans á stjórnvöld."

Ennfremur segir að boltinn sé nú alfarið í höndum stjórnvalda og aðeins 10 dagar í næstu stýrivaxtaákvörðun.

Hér má bæta því við að þegar peningastefnunefnd lækkaði stýrivexti sína síðast kom fram hjá nefndinni að hún vænti þess að hægt verði að lækka stýrivexti umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní.

Margir töldu þá að hér ætti nefndin við svipaða lækkun og varð í maí eða 2-3 prósentustig sem telst umtalsverð lækkun í alþjóðlegu samhengi. Nú virðist sem nefndin sé að koma þeim skilaboðum á framfæri að ef stjórnvöld hafi ekki lagt fram „trúverðuga áætlun um aðgerðir" verði stýrivaxtalækkunin ekki umtalsverð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×