Innlent

Sex þingmenn starfa einnig sem bæjarfulltrúar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Sex þingmenn sitja í bæjar- og sveitarstjórnum. Níu sveitarstjórnarmenn voru kjörnir á Alþingi í kosningunum í apríl síðastliðnum, en þrír þeirra hafa beðist lausnar frá störfum sínum. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir þingmennsku vera miklu meira en fullt starf. Þingmenn þiggja í grunninn 520 þúsund krónur í laun á mánuði.

Ekki lengur sveitarstjórar

Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum, lét af störfum sem borgarfulltrúi eftir að ljóst var að hún yrði umhverfisráðherra. Þá baðst Jónína Rós Guðmundsdóttir, Samfylkingu, lausnar í maí frá setu í bæjarstjórn Fljótdalshéraðs og það sama gerði Ásbjörn Óttarsson, Sjálfstæðisflokki, en hann hafði setið í bæjarstjórn Snæfellsbæjar frá 1994.

Kristján Þór Júlíusson situr enn í bæjarstjórn Akureyrar en hann lét af embætti bæjarstjóra þegar hann var kjörinn á þing 2007.Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Allt lítur út fyrir að hinir þingmennirnir munu sitja út kjörtímabilið. Fjórir þeirra voru kjörnir í fyrsta sinn á Alþingi í kosningunum í vor en Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki, og Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki, hafa undanfarin ár gegnt störfum bæjarfulltrúa samhliða þingmennsku.

Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Oddný Harðardóttir, Samfylkingu hafa látið af störfum sem sveitarstjórar. Unnur í Rangárþingi eystra og Oddný í Garði. Þá er Sigurður Ingi Jóhannesson, Framsóknarflokki, ekki lengur oddviti Hrunumannahrepps.

Flokksbróðir Sigurðar, þingflokksformaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson, hefur látið af öllum nefndar- og stjórnarstörfum fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð. Gunnar Bragi verður þó áfram formlega í sveitarstjórn en hann hefur afsalað sér föstum launum og mun þess í stað þiggja laun fyrir hvern setinn sveitarstjórnarfund.

Samræmist ekki þingstörfum

Jónína Rós Guðmundsdóttir segir hæpið að hægt sé að sinna báðum störfum á fullum krafti. Einnig telur hún hættu vera á hagsmunaárekstrum á ýmsum sviðum.

Starf þingmanna er full starf, að mati Jónínu Rósar. Það hafi henni orðið ljóst strax á fyrstu starfsvikum þingsins. Það sama segir Ásbjörn Óttarsson.

„Á sama tíma eru líka erfiðir tímar í lífi sveitafélaga og því nauðsynlegt að þar sé að starfi fólk sem hefur tíma til að sinna því vel, þó víða sé ekki gert ráð fyrir eiginlegu starfshlutfalli bæjarfulltrúa," segir Jónína Rós.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður framsóknarmanna.Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Þingmennska miklu meira en fullt starf

Gunnar Bragi Sveinsson segir þingmennsku vera miklu meira en fullt starf og því muni hann lítið sinna sveitarstjórnarmálum. Hann segir vinnutíma þingmanna misskilinn og því sé ekki hægt að mæla vinnu þingmanna eftir því hversu oft þeir sjáist í þingsal.

„Meirihluti vinnunnar fer fram utan þingsalar, á skrifstofu þingmanns, fundum í nefndum og um allt land. Ég held að flestir þingmenn sem gert hafa tilraun til að sinna öðru starfi með þingstarfinu hafi gefist upp á því," segir Gunnar Bragi.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var áður bæjarstjóri í Garði.Mynd/Anton Brink
Enginn afsláttur

Oddný Harðardóttir segir alla bæjarfulltrúa í Sveitarfélaginu Garði vera í fullu starfi annars staðar en hjá sveitarfélaginu að undanskildum forseta bæjarstjórnar sem starfar sem kennari við grunnskóla bæjarfélagsins. Hún segir bæjarfulltrúa fá greitt fyrir þá sem þeir sækja en fái ekki fastar mánaðargreiðslur.

„Ég tel að þingmennska sé fullt starf og enginn afsláttur verður gerður af því af minni hálfu. Ég sinni skyldum bæjarfulltrúa með fullu starfi líkt og allir aðrir bæjarfulltrúar í Sveitarfélaginu Garði," segir Oddný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×