Innlent

Eðlilegt að lögsaga Icesave sé í Bretlandi

icesave Mikið hefur verið deilt um samning Íslendinga við Hollendinga og Breta vegna Icesave-samninganna. Jakob Möller segir grábölvað að nauðsynlegt hafi verið að gera samningana. Annað hafi þó ekki verið hægt.
icesave Mikið hefur verið deilt um samning Íslendinga við Hollendinga og Breta vegna Icesave-samninganna. Jakob Möller segir grábölvað að nauðsynlegt hafi verið að gera samningana. Annað hafi þó ekki verið hægt.

Jakob R. Möller lögfræðingur segir að íslenska ríkið hafi verið nauðbeygt að gera Icesave-samningana. Hann telur þau vaxtakjör sem þar bjóðast ekki tiltölulega há. Þetta kemur fram í áliti sem lögmaðurinn vann fyrir utanríkisráðuneytið.

Í áliti Jakobs kemur fram að ítrekaðar yfirlýsingar íslenska ríkisins síðasta haust, um að staðið yrði við skuldbindingar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um tryggingasjóði, hafi gert það að verkum að nauðsynlegt hafi verið að semja um málið. Þau rök að Ísland hafi fullnægt skyldu sinni með því að setja tryggingasjóðinn á stofn og þurfi því ekki að greiða, líkt og Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal hafa meðal annarra bent á, eigi því ekki við vegna ítrekaðra yfirlýsinga stjórnvalda.

Jakob segir samninginn vera keimlíkan alþjóðlegum lánasamningum með jafngildi sjálfskuldarábyrgðar. Hann segir vanefndaákvæði samningsins vera í samræmi við ýmsa aðra lánasamninga sem ríkið hefur gert.

Hvað lögsöguna varðar segir Jakob að engu höfuðmáli skipti hvers lands lög gildi um samningana, eðlilegt sé að löggjöf eins samningsríkjanna gildi. Ensk fjármálalöggjöf standi traustum fótum og Íslendingar hafi um áratugaskeið gert samninga sem lúti henni.

jakob möller

Þá hafi Ísland í marga áratugi gert lánasamninga „sem háðir hafa verið erlendum lögum og undir lögsögu erlendra dómstóla [...] Hingað til hefur ekki verið talið, að þetta eitt út af fyrir sig feli í sér skerðingu á fullveldi Íslands.“

Að því sögðu telur Jakob að heppilegast hefði verið að fela alþjóðlegum gerðardómi lögsögu í málinu, viðsemjendur hafi hins vegar ekki léð máls á því.

Nokkuð hefur verið rætt um tilkall kröfuhafa í eigur ríkisins. Jakob segist ósammála því, sem til að mynda Magnús Thoroddsen lögmaður hefur haldið fram, að Bretar og Hollendingar geti gert kröfu í allar eigur þess hérlendis; svo sem Alþingishús og Stjórnarráð.

Í niðurlagi segir Jakob: „Ég dreg enga dul á að mér þykir grábölvað að íslenzka ríkið skuli hafa talið sig nauðbeygt til að þess að gera þá samninga sem hér um ræðir.“ Hann telur þá þó nauðsynlega og þekkingar- og skilningsleysi hafi stýrt umræðunni hingað til.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×