Viðskipti innlent

Stjórnarkjör Íslandsbanka: Beðið eftir staðfestingu FME

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Tilnefning Árna Tómassonar og Jóns Sigurðssonar í bankaráð Íslandsbanka bíður nú staðfestingar FME. Árni Tómasson er í stjórn Alfesca, en fyrirtækið er stór skuldari hjá Íslandsbanka. Þorbjörn Þórðarson.

Eins og fréttastofa greindi frá í gær er Árni Tómasson annar þeirra tveggja Íslendinga sem tilnefndir hafa verið í bankaráð Íslandsbanka. Hinn er Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og stjórnarformaður FME.

Tilnefningarnar bíða nú staðfestingar Fjármálaeftirlitsins, sem kannar fjárhagsleg tengsl og bakgrunn þeirra stjórnarmanna sem tilnefndir eru. Árni Tómasson er í stjórn Alfesca, framleiðslufyrirtækis á sviði sjávarafurða, sem er að stærstum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar og franska matvælafyrirtækisins Lur Berri. Alfesca er stór skuldari hjá Íslandsbanka, en Glitnir tók í að fjármagna fyrirtækið á sínum tíma ásamt Kaupþingi og evrópskum bönkum.

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Glitnis í gær var það ÍSB Holding ehf., sérstakt dótturfélag skilanefndarinnar sem heldur utan um 95 prósent hlutinn í Íslandsbanka, sem tilnefndi bankaráðsmennina. Hið rétta er að ÍSB Holding hafði ekkert með tilnefningarnar að gera, þær höfðu verið ákveðnar áður, af skilanefnd Glitnis. Það er því Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sem er að tilnefna sjálfan sig og Jón Sigurðsson. Það var enimitt FME sem skipaði Árna Tómasson í skilanefndina í október 2008, en Jón var stjórnarformaður FME á þeim tíma. Með tilnefningu Jóns i bankaráðið hefur því raun hringnum verið lokað.

FME er kunnugt um stjórnarsetu Árna hjá Alfesca. Áður hafa verið gerðar athugasemdir við veru Árna í skilanefnd Glitnis, vegna stjórnarsetu hans hjá Alfesca. Hann hefur svarað því til að hann gæti þess að ræða ekki við samstarfsmenn sína um mál sem tengjast Alfesca og fjórum sinnum hafi hann vikið af fundi vegna stjórnarsetunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×