Viðskipti innlent

Deilt um verðbætur til verktaka hjá Faxaflóahöfnum

Deilt var um greiðslu á verðbótum til verktaka í hafnarstjórn Faxaflóahafna á fundi stjórnarinnar fyrir helgina. Stjórnin samþykkti svo að fela hafnarstjóra að ganga til samninga um greiðslu skertra verðbóta vegna þriggja verkefna á vegum hafnarinnar.

Þetta var gert á grundvelli samkomulags Reykjavíkurborgar við Samtök iðnaðarins. Tryggt yrði að aðalverktaki skili gögnum um hlutdeild undirverktaka í verðbótunum.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í stjórn Faxaflóahafna voru mótfallnir þessu og vildu hafna því að gera samkomulag við nokkra verktaka um verðbætur á óverðtryggða verksamninga.

Í bókun þeirra á fundinum um málið segir m.a.: "Samkomulag Reykjavíkurborgar átti ekki að vera fordæmisgefandi fyrir fyrirtæki í eigu borgarinnar en er greinilega orðið það með miklum fjárútlátum á kostnað borgarbúa.

Samkomulag sem þetta á einungis að vera gert á grundvelli sérstakra málefnalegra ástæðna, en á ekki að fylgja eftir ákvörðun núverandi meirihluta borgarstjórnar sem jafnframt er bæði umdeild lagalega og vegna mikils kostnaðarauka sem fenginn er með hæpnum útreikningum."

Meirihluti hafnarstjórnar bókaði á móti: "Á undanförnum mánuðum hafa stórir opinberir verkkaupar eins og Vegagerðin, Siglingastofnun, Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavíkurborg tekið ákvarðanir um að verðbæta samninga í ljósi breyttra forsendna. Færa verður fyrir því sterk rök og unnt að sýna fram á að forsendur séu ólíkar hvað varðar Faxaflóahafnir sf., sem eru í eigu opinberra aðila. Koma þar m.a. til sjónarmið um jafnræði."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×