Viðskipti innlent

Kröfum 25 alþjóðalegra banka í SPRON málinu hafnað

Kröfum 25 alþjóðlegra banka á hendur Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og SPRON hefur verið hafnað.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst nú fyrir hádegið á kröfu framangreindra um að vísa frá kröfum 25 alþjóðlegra banka sem kröfðust viðurkenningar á bótaskyldu vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á sparisjóðnum.

Í niðurstöðum dómsins segir að kröfur bankanna 25 hafi ekki verið nægilega vel reifaðar og því var málinu vísað frá dómi.

Í niðurstöðum dómsins segir m.a.: "Þótt stefnendur hafi í dómkröfu sinni tilgreint tjónsatburðinn þá skortir í stefnu að þeir sýni fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni í málinu. Samkvæmt gögnum málsins er ekkert samningssamband á milli stefnenda og stefnda.

Stefnendur segjast vera kröfuhafar SPRON, án þess að lánasamningar hafi verið lagðir fram, og án þess að SPRON hafi fengið þann lausafjárstuðning sem þeir óskuðu eftir. Að beiðni stjórnar SPRON tók Fjármálaeftirlitið SPRON yfir.

Í ljósi þessa verða stefnendur að gera fullnægjandi grein fyrir þeim lögvörðu hagsmunum sem þeir telja sig eiga í málinu. Það hafa þeir ekki gert og er því um vanreifun að ræða."

Málskostnaðurinn, 2 milljónir króna, fellur á bankana 25. Í þeirra hópi er fjöldi þýskra banka, þar á meðal Bayerische Landesbank, Commerzbank AG og Dresdner Bank AG. Auk þeirra eru í hópnum Seðlabanki Egyptalands og japanski bankinn Sumitomo Mitsui.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×