Viðskipti innlent

Gríðarleg eftirspurn eftir leiguhúsnæði

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Talsvert aukin sókn hefur verið í leiguhúsnæði undanfarið. Sést það á því að aukning hefur verið í fjölda þinglýstra leigusamninga um íbúðarhúsnæði. Í júlí var þinglýstum 1.033 slíkum leigusamningum á landinu öllu og er það 53% aukning frá sama mánuði í fyrra. Það sem af er ári hefur 6.218 leigusamningum með íbúðarhúsnæði verið þinglýst sem er 37% aukning frá sama tímabili í fyrra. Greining Íslandsbanka kemur að þessu í Morgunkorni sínu.

Skýrist af efnahagsástandinu

Aukin sókn í leiguhúsnæði skýrist án efa af efnahagsástandinu. Sala íbúðarhúsnæðis hefur verið erfið undanfarið. Veltan á íbúðamarkaðinum hefur verið lítil og verð lækkandi.

Í slíku ástandi velja eflaust margir frekar að leigja út íbúðir sínar fremur en að láta þær standa auðar. Á móti eru kaupendur fáir enda efnahagur heimila skaddaður af kaupmáttar- og eignarýrnun síðustu mánaða.

Væntingar eru um frekari lækkun íbúðahúsnæði og vilja margir eflaust forðast að láta eigið fé sitt undir í íbúðarkaupum við slíkar aðstæður. Fleiri velja því að leggja og hefur spurn eftir slíku húsnæði þannig farið vaxandi þrátt fyrir að stór hluti erlendra aðila sem hér var umfangsmikill á leigumarkaði fyrir hrunið í fyrra sé nú fluttur erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×