Viðskipti innlent

Icelandair opnar nýjar höfuðstöðvar í Boston

Nýjar höfuðstöðvar Icelandair í Vesturheimi eru formlega teknar í notkun í dag í Boston að viðstöddum fulltrúum borgar- og flugvallaryfirvalda auk lykilfólks úr flug- og ferðaþjónustunni í Massachusettsfylki. Hlutverk skrifstofunnar í Boston er að stýra markaðs- og sölustarfi Icelandair í Bandaríkjunum og Kanada og þar starfa um 25 manns.

Í tilkynningu segir að Icelandair flýgur um þessar mundir til Íslands frá fimm borgum í Bandaríkjunum, þ.e. Boston, New York, Seattle, Minneapolis og Orlando, og tveimur Kanadískum borgum, þ.e. Halifax og Toronto.

 

Boston er stærsti áfangastaður Icelandair vestra með yfir 400 flug á ári. Alls koma um 60 þúsund ferðamenn með Icelandair til Íslands frá umsjónarsvæði skrifstofunnar árlega. Þessir ferðamenn skapa um 10 milljarða króna á ári í gjaldeyristekjur vegna kaupa á farmiðum og vöru og þjónustu á Íslandi.

"Opnun þessarar nýju skrifstofu á þessum stað eru stór tímamót hjá Icelandair og hjá íslenskri ferðaþjónustu. Hún þjónar stærsta einstaka markaðssvæðinu okkar erlendis, um 300 milljón manna markaði, og velgengni hennar skiptir félagið og íslenskt samfélag mjög miklu. Ferðamenn sem skrifstofan nær til koma með milljarðaviðskipti inn í íslenskt efnahagslíf", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

 

Aðalskrifstofa Icelandair vestra var um árabil í Columbia í Marylandfylki. Með flutningnum þaðan nú voru gerðar breytingar á starfseminni. Hluti hennar, svosem símsvörun, farseðlaútgáfa og bókhald var færð heim til Íslands, en aukið er við sérfræðiþekkingu á bandaríska og kanadíska ferðamarkaðinum.

 

Aukin áhersla er lögð á almenn markaðs- og sölumál og viðtæka dreifingu til neytenda, þ.m.t. samstarf við ferðaheildsala, ferðaskrifstofur og síðast en ekki síst um Internetið. Svæðisstjóri Icelandair í vesturheimi er Þorsteinn Egilsson, sölustjóri er Robert Keddy og markaðsstjóri er Arnar Már Arnþórsson.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×