Viðskipti innlent

Eiga 154 milljarða í gjaldeyri

Gjaldeyrir Sveiflur á gengi krónunnar hafa mikil áhrif á útreikninga á stöðu gjaldeyrisreikninga.
Gjaldeyrir Sveiflur á gengi krónunnar hafa mikil áhrif á útreikninga á stöðu gjaldeyrisreikninga.

Innstæður íslenskra fyrirtækja á gjaldeyrisreikningum í íslenskum fjármálastofnunum voru heldur lægri í júní og júlí en þær voru síðustu tvo mánuði á undan. Innstæðurnar eru þó mun hærri en þær voru að meðaltali mánuðina fyrir hrun.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu nýverið telja sérfræðingar aukna uppsöfnun gjaldeyris á reikningum benda til þess að fyrirtæki skipti ekki gjaldeyri í krónur komist þau hjá því.

Íslensk fyrirtæki áttu andvirði samtals 154,4 milljarða króna á gjaldeyrisreikningum í júlí og 146,8 milljarða í júní. Það er nokkru lægra en í maí, þegar þau áttu 173,5 milljarða, en talsvert meira en í febrúar, þegar eignin stóð í 126,9 milljörðum króna.

Seðlabankinn hefur reiknað út stöðu á gjaldeyrisreikningum á föstu gengi janúar í 2007, til að kanna stöðuna á reikningunum án þess að sveiflur í gengi brengli myndina. Þar er þó ekki tekið tillit til vægi mismunandi gjaldmiðla heldur notast við gengisvísitölu.

Á föstu gengi áttu fyrirtækin að meðaltali 100,5 milljarða á reikningunum í hverjum mánuði fyrstu sex mánuði ársins 2009. Á sama tímabili 2008 áttu þau 119,8 milljarða, og árið 2007 að meðaltali 114,9 milljarða. Sveiflur á gengi krónunnar hafa því veruleg áhrif á stöðu reikninganna. - bj








Fleiri fréttir

Sjá meira


×