Viðskipti innlent

Stjórnarformaður Icelandair Group: Atvinnulífið allt að verða ríkisvætt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnlaugur Sigmundsson segir það vera í höndum hluthafa að ákveða framtíð sína. Mynd/ Valgarður.
Gunnlaugur Sigmundsson segir það vera í höndum hluthafa að ákveða framtíð sína. Mynd/ Valgarður.
Gunnlaugur Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair Group, segist ekki vita hvort hann verði áfram stjórnarformaður fyrirtækisins.

Gunnlaugur er framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins Máttar sem missti hlut sinn í Icelandair Group í morgun þegar Íslandsbanki tók yfir 42% hlut í félaginu. „Ég veit bara ekkert um það. Ég er bara í fríi í útlöndum enda er ég kosinn í eitt ár," sagði Gunnlaugur, en aðalfundur Icelandair Group hefur þegar verið haldinn þetta árið. Gunnlaugur segir að það sé í höndum þeirra sem fara núna með hlutafé að ákveða hverjir stýri því. Gunnlaugur segist ekki hafa verið á launum hjá Mætti um mánaðabil. „Ráðningasamningurinn rann út um áramótin en ég hélt áfram að halda utan um möppurnar þangað til einhver annar var tilbúinn til þess," segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur kennir falli hlutabréfa og hruni krónunnar um stöðu mála hjá hluthöfum í Icelandair Group. „Þegar lán í erlendri mynt hafa tvöfaldast og gengi hlutabréfa hrunið þá er allt eigið fé farið," segir Gunnlaugur um það hví málin hafi farið á þennan veg. „Þetta er ekkert öðruvísi en er að gerast fyrir allt íslenskt atvinnulíf. Þetta er allt að verða ríkisvætt," segir Gunnlaugur. Á meðan stefna ríkisins sé að hirða öll fyrirtæki hefðu málin ekki getað þróast á annan veg. „Ef að stefnan er að taka þetta allt að þá náttúrlega átti Mátturinn að fara eins og allt annað," segir Gunnlaugur.

Aðspurður segist Gunnlaugur telja að breyta þurfi áherslum stjórnvalda þegar kemur að björgunaraðgerðum fyrir atvinnulífið. „Ef að ég hefði verið við stjórnvölinn, ekki bara í bönkunum heldur hjá ríkinu líka, þá hefði ég viljað hjálpa mönnum að þrauka í einhvern tíma," segir Gunnlaugur. Best sé að þeir sem hafi haldið utan um fyrirtækin geri það áfram. Þetta sé hægt að gera, án þess að skerða rétt bankanna, með því að breyta lánum í víkjandi lán.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×