Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftum aflétt að hluta til í sumar

Seðlabankinn áformar að aflétta gjaldeyrishöftunum að hluta til í sumar. Fjallað er um málið í daglegu fréttabréfi hagfræðideildar Landsbankans og þar er vitnað til viðtals sem Reuters átti við Svein Harald Öygard seðlabankastjóra um málið í gærdag.

Svein Harald segir að líklega verði lausn tilkynnt bráðlega á vanda þeirra erlendu fjárfesta sem eru með fé sitt frosið inni á Íslandi vegna haftanna. Hann segir að þetta verði gert á þann hátt að það veiki ekki gengi krónunnar.

Seðlabankinn vinni nú að því að setja upp ferli sem myndi gera sumum hinna erlendu fjárfesta, sem eiga styttri ríkisbréf, að breyta þeim úr krónum yfir í evrur.

Hagfræðideildin greinir síðan frá þeim umræðum sem orðið hafa um að íslensk fyrirtæki með innkomu í evrum gætu gefið út skuldabréf til langs tíma sem keypt væru með krónum en síðan yrðu endurgreidd í evrum. Með þessum hætti mætti umbreyta fé erlendu fjárfestanna og leyfa þeim þannig að yfirgefa Ísland.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×