Viðskipti innlent

Mjög mikill samdráttur í greiðslukortaveltu Íslendinga

Mjög mikill samdráttur hefur orðið í greiðslukortaveltu Íslendinga, einkum erlendis þar sem veltan hefur dregist saman um tvo þriðju í desembermánuði miðað við sama tíma í fyrra.

Fjallað er um máið í Morgunkorni grieningar Glitnis. Þar segir að mikill samdráttur í kortaveltu undanfarið er til marks um hversu hratt heimilin hafa hert beltið eftir að fjármálakreppan brast á síðasta haust. Tölur um veltu í smásöluverslun segja svipaða sögu.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans var heildarvelta vegna kreditkortanotkunar 20,4 milljarða kr. í desembermánuði. Reiknað á föstu gengi og verðlagi er hér um 27% samdrátt á milli ára að ræða, og athygli vekur að þegar leiðrétt er fyrir gengisbreytingum hefur erlend kreditkortavelta skroppið saman um tvo þriðju á milli ára.

Debetkortavelta minnkaði einnig verulega í desember frá sama tíma í fyrra, og nam raunbreytingin 18% í heild en 15,5% ef aðeins er litið til veltu í verslunum. Rétt er að hafa í huga að kreditkortaveltan miðast við kortatímabil en debetkortaveltan við almanaksmánuðinn.

Kortavelta gefur góða mynd af þróun einkaneyslu, og miðað við breytingar á kortaveltu undanfarna mánuði má vera ljóst að einkaneysla hefur skroppið mikið saman frá því kreppan skall á af fullum þunga. Einfalt líkan, þar sem breytingar á kreditkortaveltu auk debetkortaveltu í innlendum verslunum eru notaðar til að spá fyrir um þróun einkaneyslu, gefur þá niðurstöðu að einkaneyslan hafi minnkað um u.þ.b. fimmtung á síðasta fjórðungi nýliðins árs miðað við sama tíma árið 2007.

Svo snarpur hefur samdráttur einkaneyslu aldrei orðið síðan Hagstofan hóf að birta ársfjórðungslega þjóðhagsreikninga fyrir áratug síðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×