Skoðun

Flýtum vegaframkvæmdum og sköpum störf

Þór Sigfússon skrifar

Við getum flýtt vegaframkvæmdum umtalsvert á næstu 2-4 árum án þess að þær íþyngi ríkinu. Með því getum við skapað störf og aukið öryggi í umferðinni sem sparar þjóð­félaginu milljarða króna á ári.

Fyrir rétt rúmlega 10 árum opnaði fyrirtækið Spölur Hvalfjarðargöng. Hugmynd nokkurra einstaklinga um að einkaaðilar reistu og rækju göng hérlendis varð að veruleika. Í upphafi var gert ráð fyrir því að það tæki um 20 ár fyrir göngin að borga sig upp en ljóst er að það mun taka skemmri tíma. Nú þurfum við að skoða hvar Spalar­fyrirmyndin getur átt við annars staðar í vegaframkvæmdum hérlendis og hvernig hún getur komið best að gagni í efnahagssamdrætti.

Nú er rætt um aðkomu lífeyris­sjóða að uppbyggingu nýrrar byggingar Landspítalans og breikkun Hvalfjarðarganga og er það vel. En í vegaframkvæmdum má einnig sjá fyrir sér að lífeyrissjóðum, alþjóð­legum þróunarbönkum og íslenskum fjármálafyrirtækjum verði boðið að fjárfesta í nýjum verkefnum á þessu sviði sem sum hver gætu hafist strax í lok næsta árs. Þau verkefni sem ég tel að við eigum strax að setja í vinnslu með þessari aðferðafræði eru Sundabraut, breikkun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar og ýmis gangagerð á höfuð­borgarsvæðinu og göng úti á landi sem teljast arðbær.

Kosturinn við aðferðina sem beitt var í Hvalfjarðargöngunum er sá að fjárfestingarnar færast ekki í ríkisbókhaldið. Útgjöldum vegna framkvæmdar af þessu tagi er jafnað yfir líftíma eignarinnar í stað þess að allur kostnaður sé gjaldfærður við upphaf framkvæmda eins og annars er gert. Verði Sundabraut flýtt með þessari aðferð þá eiga að koma til veggjöld þar til ríkið taki yfir verkefnið að ákveðnum tíma liðnum. Veggjöld eru ekki til vinsælda fallin en nú er ekki tími fyrir vinsældakosningar heldur raunhæfar leiðir sem íþyngja ekki ríkinu. Þeir sem vilja ekki greiða veggjöld nota gömlu leiðina. Veggjöld má nota við gangagerð en þau eru hins vegar ekki fær leið við breikkun stofnbrautanna.

Slys á Suðurlandsvegi og Vestur­landsvegi eru alltof tíð og framkvæmdir á þeim vegum geta skilað gríðarlegum ábata fyrir þjóðfélagið með lægri tjónatíðni. Tjónin á þessum vegum eru allt að tvöfalt kostnaðarsamari fyrir samfélagið en meðalslys á öðrum vegum. Þess vegna eigum við að leggja aukinn þunga í uppbyggingu þessara vega þar sem sá kostnaður mun vafalítið draga verulega úr samfélagskostnaði vegna umferðarslysa næstu áratugi.

Þegar litið er til kostnaðar vegna alvarlegustu slysanna sem verða á Suðurlandsvegi er það sérstaklega sláandi að langalvarlegustu og kostnaðarsömustu umferðarslysin verða þegar bifreiðar úr gagnstæðri aksturs­stefnu skella saman, eins og dregið er fram á neðangreindri mynd. Íslensk tryggingafélög eiga að koma að uppbyggingu á þessu sviði og þau hafa sýnt áhuga á slíku enda eru fjárfestingar af þessu tagi bæði með ígildi ríkisábyrgðar og draga umtalsvert úr tjónum.

Hvaða slys eru kostnaðarsömust á Suðurlandsvegi?

Með því að nýta okkur enn frekar aðferðir í anda Hval­fjarðar­ganganna mætti hugsa sér að á næstu þrem árum myndu vegaframkvæmdir allt að því tvöfaldast en um leið gæti ríkið dregið úr því fjármagni sem það hugðist leggja beint í opinberar framkvæmdir á næstu árum. Þannig myndum við geta stoppað meira í fjárlagagatið en um leið aukið umsvif í vegaframkvæmdum hérlendis umtalsvert.




Skoðun

Sjá meira


×