Innlent

Óljóst hvers vegna Bretar geta leitað til hvaða dómstóls sem er

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur segir meginregluna vera þá að leitað verði til breskra dómstóla. Mynd/ Vilhelm.
Steingrímur segir meginregluna vera þá að leitað verði til breskra dómstóla. Mynd/ Vilhelm.
„Ég svo sem veit ekki alveg af hverju það er þannig," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra aðspurður hvers vegna Bretar geti leitað til hvaða dómstóls sem er ef ágreiningur rís upp um Icesavesamninginn. „Væntanlega vegna þess að ef einhverjar eignir eða einhverjir hagsmunir væru annarsstaðar sem þessu tengdust þá afsöluðu þeir sér ekki rétti til að bera þann ágreining undir dómstól segjum í Danmörku eða eitthvað svoleiðis," segir Steingrímur.

Samkvæmt uppgjörssamningi breska og íslenska innistæðutryggingasjóðsins geta Íslendingar einungis leitað til breskra dómstóla rísi upp ágreiningur vegna Icesave. Bretar geta hins vegar leitað til hvaða dómstóls sem er. Steingrímur segir að meginreglan sé sú að það sé breskur dómstóll sem gildi um þetta. „Allt snýst þetta um það að ef upp kemur ágreiningur sem ekki er leystur með einhverju samkomulagi að þá sé einhver lögsaga einhversstaðar til staðar þar sem hægt er að bera málið upp," segir Steingrímur.

„Auðvitað hefðum við viljað að íslenskur dómstóll eða einhver alþjóðlegur dómstóll fjallaði um þetta. En á það var ekki fallist og notuð þau rök að það væri venjan að lögsaga lánveitandans gilti," bætir Steingrímur við.


Tengdar fréttir

Trúnaðarmál: Ákvæði uppgjörssamnings Icesave opinberuð

Íslendingar geta einungis leitað til breskra dómstóla komi upp ágreiningur í tengslum Icesave samkomulagið. Bretar geta hins vegar leitað til hvaða dómsstóls sem er. Þetta kemur fram í uppgjörssamningi milli íslenska og breska innistæðutryggingasjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×