Innlent

Virkjanir í Þjórsá ein af forsendum stöðugleikasáttmálans

Heimir Már Pétursson skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að virkja verði í neðri hluta Þjórsár ef þær framkvæmdir sem gefin eru fyrirheit um í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda eigi að verða að veruleika. Í sáttmálanum segi að öllum hindrunum í vegi framkvæmda eigi að ryðja burt fyrir 1. nóvember.

Skrifað var undir víðtækan stöðugleikasáttmála ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins hinn 26. júní síðast liðinn en þar er m.a. gert ráð fyrir umfangsmiklum framkvæmdum til að slá á atvinnuleysi og rétta við atvinnulífið í landinu.

„Það er alveg ljóst að virkjanirnar í neðri Þjórsá hljóta að koma inn í þessa mynd ef menn ætla sér að framkvæma allt sem er á teikniborðinu í atvinnulífinu, þ.e.a.s. Helguvík og framleiðsluaukninguna í Straumsvík ásamt ýmsum öðrum verkefnum sem eru í gangi," segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Þá verði að fara í neðri Þjórsá.

Ríkið á nú meirihluta vatnsréttinda í Þjórsá en þar á þó enn eftir að semja við nokkra landeigendur og síðan eru virkjanirnar sem slíkar umdeildar í þjóðfélaginu og innan beggja stjórnarflokkanna. Vilhjálmur segir málið snúast um vilja og ákvarðanatöku, en málið hafi verið rætt meðal helstu hagsmunaaðila.

„Við erum með í smíðum ákveðið minnisblað þar sem þetta kemur allt fram og við munum leggja það fyrir forsætisráðherra til að sjá hvort ekki er hægt að koma málunum fram," segir Vilhjálmur. Í stöðugleikasáttmálanum komi fram að það eigi að ryðja öllum hindrunum úr vegi þessara framkvæmda fyrir 1. nóvember.

Þá þurfi að liggja fyrir áætlun um hvernig staðið verði að virkjanaframkvæmdum þannig að orka sé til staðar þegar hennar verði þörf.

Vilhjálmur segir að verið sé að vinna að rammaáætlun um virkjanir. Hún hafi átt að liggja fyrir seinna en markmiðið um framkvæmdirnar í stöðugleikasáttmálanum. Hann voni hins vegar að hægt sé að flýta gerð rammaáætlunarinnar, eða að minnsta kosti taka eitthvað af virkjanaframkvæmdunum út fyrir sviga þannig að þær liggi fyrir fyrr en aðrar, þannig að hægt sé að taka þessar ákvarðanir og ryðja öllum hindrunum úr vegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×