Viðskipti innlent

Yfir 300 læknar með hærri laun en forsætisráðherra

Nær 340 læknar á launaskrá hins opinbera eru með hærri heildarlaun en forsætisráðherra. Það er 935.000 kr. á mánuði í laun. Ef laun þessara lækna væru lækkuð niður í laun forsætisráðherra mætti spara 1,5 milljarð kr. á hverju ári.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Skúla Helgasonar um málið á alþingi. Í svarinu segir að af 20.762 ríkisstarfsmönnum sem fengu greidd dagvinnulaun í mars 2009 voru 402 starfsmenn sem uppfylltu fyrrnefnd skilyrði og voru með hærri heildarlaun en forsætisráðherra.

Af þessum 402 starfsmönnum voru 301 sem tilheyrðu Læknafélagi Íslands og 34 sem tilheyrðu Skurðlæknafélagi Íslands. Næst á eftir þessu kemur fólk sem tilheyrir Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eða 13 einstaklingar.

Til heildarlauna teljast mánaðarlaun, yfirvinnulaun og svokölluð önnur laun. Til annarra launa teljast gæsluvaktir lækna, staðarvaktir á sjúkrahúsum, vottorðagreiðslur og gjaldskrárverk lækna í heilsugæslu, vaktaálag vaktavinnustétta, greiðslur vegna bakvakta ásamt öðrum launagreiðslum sem ekki teljast til mánaðarlauna eða yfirvinnulauna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×