Viðskipti innlent

Makaskipti nema þriðjungi af öllum fasteignaviðskiptum

Undanfarna 3 mánuði hafa makaskiptasamningar verið um þriðjungur fasteignaviðskipta. Hlutfall makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum byrjaði að hækka samhliða því sem framboð lánsfjár til fasteignakaupa byrjaði að þrengjast verulega og umsvif á fasteignamarkaði tóku að dragast saman.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að með makaskiptasamningi er átt við kaupsamning þar sem hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign. Í febrúar voru gerðir 39 makaskiptasamningar í fasteignaviðskiptum, sem samsvarar því að 31% fasteignaviðskipta þann mánuðinn hafi farið fram með skiptum á fasteignum að einhverjum hluta. Til samanburðar var þetta hlutfall 3,1% í febrúar 2007.

Búast má við því hlutfall makaskiptasamningum í fasteignaviðskiptum muni enn haldast hátt á næstu mánuðum enda er það oft eina leiðin sem fær er til að skipta um húsnæði eða minnka við sig á tímum lausafjárþurrðar og kreppu.

Rétt er að halda því til haga að Fasteignaskrá undanskilur makaskiptasamninga við útreikning á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæði, og endurspeglar vísitalan því verð í beinum viðskiptum þar sem greiðsla kemur fyrir fasteign.

Tíðni makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptum hefur stóraukist frá því um mitt síðasta ár en allt frá maímánuði í fyrra hafa makaskiptasamningar verið um eða yfir fimmtungi allra fasteignaviðskipta á markaði samkvæmt gögnum frá Fasteignaskrá Íslands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×