Skoðun

Löglegt? Siðlegt!

Höskuldur Þórhallsson skrifar
Þorvaldur Gylfason prófessor reynir í grein í Fréttablaðinu að svara ákalli Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors og Lárusar Blöndals hrl. um röksemdir fyrir því að Íslendingum beri lagaleg skylda til að borga Icesave-skuldbindingarnar. Þótt Þorvaldur svari þeirri spurningu ekki til fulls veltir hann því upp hvort okkur beri siðferðileg skylda til þess og þá einkum út frá sjónarhóli Breta. Sjónarmið Frakka

Þorvaldur telur skiljanlegt að þjóðir Evrópu telji að Íslendingum beri að greiða þessar skuldir og vitnar í orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í DV máli sínu til stuðnings. Þar sagði Ingibjörg að ekki mætti leika vafi á að innistæður væru tryggðar því þá myndi skapast réttaróvissa. Þar með hefði innistæðueigandi á Spáni, í Frakklandi eða annars staðar fengið tilefni til að efast um tryggingar og tekið út spariféð sitt. Þessi röksemdarfærsla gengur ekki upp ef grannt er skoðað.

Í fyrsta lagi er allskostar óvíst að allar þjóðir Evrópu telji að Íslendingum beri að greiða þessar skuldir. Fullyrðingar í aðra átt hafa komið fram og einfaldlega rangt að halda þessu fram. Í öðru lagi verða innistæður verða eftir sem áður tryggðar með því sem fyrir er í tryggingasjóðunum.

Íslendingar hafa aldrei haldið öðru fram. Þá eru engar líkur á því að bankar muni af þessari ástæðu einni verða gjaldþrota. Og í þriðja lagi líta Frakkar sömu augum innistæðutryggingakerfið og Stefán Már og Lárus. Franski seðlabankinn hefur þegar lýst því yfir að engin ábyrgð sé á bak við franska banka önnur en ábyrgðin í innistæðutryggingasjóði landsins. Engin ríkisábyrgð sé þar á bak við. Þess ber að geta að bankastjóri franska seðlabankans sem gaf út þessa yfirlýsingu er núverandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu.

Orð skulu standaÍ greininni bendir Þorvaldur einnig á skýrslu Jakobs Möllers, hrl. þar sem fullyrt er að ítrekaðar yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda bindi hendur þeirra; samningar séu því nauðsynlegir og dómstólaleiðin komi því ekki til álita. Þetta er vindhögg. Íslensk stjórnvöld gáfu í þrí- eða fjórgang misvísandi og óljósar yfirlýsingar til hollenskra og breskra yfirvalda. Engin þeirra getur bundið Íslendinga að þjóðarrétti, hvað þá velt úr gildi tilskipun ESB um innistæðutryggingar eða EES-samningnum. Þá geta yfirlýsingar framkvæmdavaldsins aldrei gengið framar þeirri skýru reglu stjórnarskrárinnar, að Alþingi eitt geti tekið ákvarðanir um fjárútlát úr ríkissjóði. Sambærilegar reglur eru í rétti allra vestrænna þjóða. Sjónarmið Breta

Þorvaldur veltir upp þeirri spurningu hvort Bretar, með fulltingi annarra þjóða myndu falla frá kröfu sinni ef Íslendingum bæri ekki lagaskylda til að greiða Icesave-ábyrgðirnar og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki endilega svo, krafan yrði þá siðferðileg frekar en lagaleg.

Þessi niðurstaða er afar furðuleg svo ekki sé meira sagt. Við þurfum væntanlega ekki fulltingi eins eða neins til að Bretar falli frá kröfu sinni. Slíkt liggur í hlutarins eðli.

Vangaveltur um hvort siðferðilega hafi ranglega verið staðið að sölu Landsbankans og hvort Björg­ólfur eldri hafi eitt sinn fengið skilorðsbundinn dóm fyrir bókhaldsbrot, hvað þá hugsanleg tengsl Björgólfs yngri við rússneska auðkýfinga, hafa bara ekkert með það að gera hvort Bretar eigi siðferðilega kröfu á íslenskan almenning út af Icesave. Ég deili hins vegar pirringi mínum með Þorvaldi út í íslenska auðmenn og ég krefst þess eins og hann að fá að vita hvort orðrómur um misferli eigi við rök að styðjast.

En eitt er víst. Þjóð sem ber fyrir sig að annrri þjóð beri siðferðileg skylda til að greiða umfram skyldu skv. dómsúrskurði yrði að athlægi á alþjóðavettvangi.

Í góðri trú

Í lok greinarinnar kemst Þor­valdur að þeirri niðurstöðu að viðskiptavinir hafi mögulega verið í góðri trú vegna yfirlýsinga íslenskra stjórnvalda um að þau myndu styðja bankana. Og þess vegna kynnu Bretar að líta svo á, að Íslendingum bæri siðferðileg skylda til að axla ábyrgð á Landsbankanum hvað sem lögin segi. Það er jákvætt að Þorvaldur telji að engin lög kveði á um slíka fá­sinnu. Þau gera það heldur ekki.

Íslendingar geta heldur ekki verið að velta því fyrir sér hvað Bretum kynni að finnast um afstöðu okkar. Reyndar hafa Bretar sýnt það í gegnum tíðina að þeir virða réttarríkið þannig að ég hef efasemdir um að túlkun Þorvalds á tilfinningalífi þeirra eigi við rök að styðjast.

Eins og ég hef vikið að fæ ég ekki á nokkurn hátt séð að Íslendingum beri lagaleg, hvað þá siðferðileg, skylda til að greiða Icesave-skuldbindingarnar að kröfu Breta og Hollendinga.

Íslensk stjórnvöld gáfu í þrí- eða fjórgang misvísandi og óljósar yfirlýsingar til hollenskra og breskra yfirvalda. Engin þeirra getur bundið Íslendinga að þjóðarrétti, hvað þá velt úr gildi tilskipun ESB um innistæðutryggingar eða EES-samningnum.

Höfundur er héraðsdóms­lögmaður og alþingismaður.

 




Skoðun

Sjá meira


×