Viðskipti innlent

Greining: Ársverðbólgan verður 8% næstu sex mánuði

Greining Nýja Kaupþings gerir ráð fyrir 4% hækkun verðlags næstu 6 mánuði, þ.e. mánuðina ágúst 2009 til febrúar 2010. Verðbólgan verður því ríflega 8% á ársgrundvelli á þessu tímabili gangi spáin eftir.

 

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir ennfremur að spá þeirra um verðbólgustig í september er óbreytt frá því hún var fyrst sett fram, það er 0,8% hækkun verðlags.

Greiningin spáir 0,5% hækkun verðlags milli mánaða í október og 0,2% hækkun í nóvember. Eftirfarandi þættir ráða mestu um verðlagsþróun í október og nóvember:

Gengi krónunnar er 25% veikara en þegar það náði sínu sterkasta gildi á árinu, þ.e. í mars síðastliðnum. Áhrif þessarar veikingar eru ekki öll komin fram en gengisstöðugleiki síðustu mánaða gerir það að verkum að áhrifin fara þverrandi.

Því gerir verðbólguspá næstu þriggja mánaða ráð fyrir tiltölulega hóflegum áhrifum gengis á innflutningsverðlag. Í verðbólguspánni er gengið út frá því að gengi krónunnar haldist óbreytt í EUR/ISK 180 á spátímabilinu.

Árstíðabundnir þættir valda því að verðlag hækkar að jafnaði heldur meira í október heldur en nóvember, sem skýrir að miklu leyti muninn á spánni fyrir mánuðina tvo.

Húsnæðisverð lækkar vísitölu neysluverðs um 0,1% hvorn mánuðinn um sig samkvæmt spánni. Húsnæðisverðið er þó ávallt stór óvissuþáttur.

Desember til febrúar: Vegna forsendunnar um stöðugt gengi verður innflutningsverðbólga hófleg á þessu tímabili. Helsti drifkraftur verðbólgunnar á þessu tímabili verður að mati greiningarinnar skatta- og gjaldskrárhækkanir hins opinbera, sem hún áætlar að skili um 2% hækkun verðlags um þetta leyti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×