Erlent

Mótmælendur skotnir til bana

Mótmælendur kveiktu elda til að loka götum í borginni Teheran í gær. fréttablaðið/ap
Mótmælendur kveiktu elda til að loka götum í borginni Teheran í gær. fréttablaðið/ap
Fjórir mótmælendur voru skotnir til bana í Teheran, höfuðborg Írans, í gær. Meðal hinna látnu var frændi stjórnarandstöðuleiðtogans Mirs Hosseins Mousavi, að sögn breska ríkisútvarpsins. Tugir særðust og um þrjú hundruð manns voru handteknir í mótmælunum.

Um þessar mundir halda sjía-múslimar hátíð til minningar um spámanninn Imam Hussein. Stjórnarandstaðan hefur notað hátíðisdaga undanfarna mánuði til þess að mótmæla, og var mótmælt í að minnsta kosti fjórum borgum landsins í gær. Til átaka kom á öllum stöðum.

Mótmælendur köstuðu steinum í lögreglumenn og kveiktu í mótorhjólum og bílum lögreglunnar. Lögreglan reyndi að dreifa mótmælendum með táragasi og með því að skjóta viðvörunarskotum í loftið. Því næst var skotið á fólk.

Lögregla í Teheran hefur neitað því að fólk hafi látið lífið. Ekki hafi verið skotið á mótmælendur og lögreglumenn á vakt hafi ekki einu sinni borið skotvopn. Átökin í gær voru þau blóðugustu síðan mótmælin stóðu sem hæst í júní síðastliðnum.- þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×