Innlent

Skúta strandaði langt fyrir innan viðmiðunarbauju

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Sigurvon
Sigurvon Mynd/ Brokey.is

Skúta strandaði í kvöld á Engeyjarsundi. Skútan er í eigu Brokeyjar, Siglingafélags Reykjavíkur. Vanur maður sigldi skútunni en athygli vekur að hún er langt fyrir innan bauju sem siglingamenn miða sig við allajafna til að lenda ekki í grynningum.

„Við vitum ekki ennþá hvort hún er mikið skemmd," segir Kristján Skúli Sigurgeirsson, formaður Brokeyjar. „Þeir voru ekki búnir að losa hana þegar ég var þarna niður frá og mér skilst að þeir séu að hinkra eftir háflóði."

Kristján heldur að um fjórir hafi verið um borð en sá er sigldi skútunni er einn eftir um borð að aðstoða við björgunaraðgerðir. Kristján telur að á þeim stað sem skútan strandaði sé aðallega sandur. „Eða ég vona það allavega," segir hann.

Siglingamenn sem fara um svæðið fara vanalega út fyrir bauju sem er á staðnum til þess að sleppa við grynningar. Það vekur því athygli að vanur siglingamaður hafi gert slík mistök að sigla töluvert inn fyrir baujuna.



„Það er einmitt þess vegna sem hún strandaði. Það er alveg hægt að vera þarna ef þú veist hvar skerið er en menn fara gjarnan ekki inn fyrir baujuna. Hann er langt langt fyrir innan hana," segir Kristján og bætir við: „Ég hugsa að honum finnist ekki gaman að segja frá þessu á eftir," segir hann á léttum nótum. „Hann hefur bara gleymt sér eitthvað."

Kristján segir að skútan sé gömul en hafi öll verið gerð upp í vetur. Þetta mun þó vera eina skútan sem siglingafélagið á og segir Kristján það miður. Hann vonast því til að hún sé ekki mikið skemmd og geti komist sem fyrst í notkun á ný.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×