Viðskipti innlent

Erlendir kröfuhafar hafa ekki sett tímapressu

Sigríður Mogensen skrifar
Viðskiptaráðherra segir að erlendir kröfuhafar hafi ekki sett mikla tímapressu á endurreisn bankakerfisins og vilji frekar að farið sé hægt í hlutina. Verið er að leggja lokahönd á skiptingu eigna milli gömlu og nýju bankanna en ríkisbankarnir verða minni en áður var gert ráð fyrir.

Mats Josefsson, formaður nefndar um endurreisn bankakerfisins, hefur gagnrýnt hægagang við endurreisn fjármálakerfisins, en ekki er enn búið að skilja á milli gömlu og nýju bankanna. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir að helsta ástæða þess að tímaáætlanir hafi ekki gengið eftir sé sú að menn hafi verið of bjartsýnir í upphafi.

Gylfi segir að verið sé að leggja lokahönd á skiptingu eigna á milli gömlu og nýju bankanna. Hann segir óhætt að fullyrða að nýju bankarnir verði nokkuð minni en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.

Sænski bankaráðgjafinn lét einnig hafa það eftir sér í viðtali í sænsku blaði í síðustu viku að Íslendingar gerðu sér ekki grein fyrir því hversu dýrt það væri að endurreisa bankakerfið. Þar var því slegið fram að endurreisnin gæti kostað 85% af vergri landsframleiðslu sem væru þá rúmir tólf hundruð milljarðar króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×