Innlent

Vilja upplýsingar um arðsemi orkusölusamnings vegna álvers

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og VG vilja upplýsingar um arðsemi orkusölusamnings vegna álvers í Helguvík.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og VG vilja upplýsingar um arðsemi orkusölusamnings vegna álvers í Helguvík.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri Grænna segja nauðsynlegt áður en orkusölusamningur Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls vegna álvers í Helguvík verður lagður fram í borgarráði og afgreiddur í borgarstjórn að borgarfulltrúar fái góða yfirferð yfir arðsemi verkefnisins.

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti á fundi sínum 29. desember að undirrita samaning við Norðurál um sölu á orku fyrir álver í Helguvík sem gert er ráð fyrir að framleiði 360 þúsund tonn á af áli á ári. Gildandi starfsleyfi gerir ráð fyrir framleiðslu 250 þúsund tonna. Samningurinn var samþykktur með fjórum atkvæðum gegn einu mótatkvæði fulltrúa Vinstri grænna en fulltrúi Samfylkingarinnar sat hjá við afgreiðslu málsins. Fjallað var um málið á fundi borgarráðs í morgun.

Óska eftir áliti borgarhagfræðings

,,Þá er óskað eftir áliti borgarhagfræðings á arðsemi verkefnisins og áhrifum á fjárhagsstöðu Orkuveitunnar m.a. eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Þá verði möguleg áhrif á lánskjör Reykjavíkurborgar metin í því sambandi," segir í bókun Bjarkar Vilhelmsdóttur, Sigrúnar Elsu Smáradóttur og Þorleifs Gunnlaugssonar fulltrúa Samfylkingar og Vinstri Grænna á fundinum.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, tók undir bókunina og lýsti jafnfram yfir áhyggjum sínum af stóraukinni sölu á niðurgreiddri orku til stóriðjustarfsemi.

Upplýsingafundur í næstu viku

Fulltrúar meirihlutansd tóku undir mikilvægi þess að borgarfulltrúar séu vel upplýstir um verkefnið líkt og önnur stórverkefni á vegum Orkuveitunnar.

Þá kom fram í bókun Óskars Bergssonar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Kjartans Magnússonar að stefnt sé að halda upplýsingafund um raforkusamninginn með öllum borgarfulltrúum í næstu viku þar sem fulltrúar Orkuveitunnar kynna málið og fjármálastjóri Reykjavíkur og borgarhagfræðingur svara fyrirspurnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×