Viðskipti innlent

Vörður: Föroya Banki eignast meirihluta

Föroya Banki hefur keypt 51% hlut í tryggingarfélaginu Verði. Heildarverðmæti kaupanna nema 47 miljónum danskra kr. eða 1.150 milljónum kr.

 

Í tilkynningu segir að kaup Föroya Banka séu í samræmi við þá stefnu bankans að víkka út starfsemi sína í tryggingarrekstri. Fyrir rekur bankinn tryggingarfélagið Trygd í Færeyjum.

 

„Rekstur tryggingafélags okkar, Trygd, hefur gengið vel undanfarin tíu ár" segir Janus Petersen forstjóri Föroya Banki í tilkynningunni. „Hinn góði árangur Trygd eykur traust okkar á því að útvíkka starfsemi okkar á þessu sviði"

 

Fram kemur í tilkynningunni að með kaupunum muni eiginfjárhlutfall Varðar verða styrkt verulega með nýju hlutafé upp á 700 milljónir kr. Þar af komi 600 milljónir kr. frá bankanum og 100 milljónir kr. frá öðrum eigendum Varðar.

 

Þar að auki mun Föroya Banki kaupa hluti af öðrum hluthöfum fyrir 500 milljónir kr. og því nemi heildarfjárfesting bankans 1.150 milljónum kr.

 

Aðrir hluthafar í Verði eru Landsbankinn, SP-Fjármögnun og Byr.

 

Kaup bankans á Verði eru háð samþykki eftirlitsaðila á Íslandi og í Færeyjum.






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×