Viðskipti innlent

Verð á ýsu og þorski nær tvöfaldast í Bretlandi

Verð á ýsu og þorski hefur nær tvöfaldast á mörkuðunum í Grimsby og Hull. Á vefsíðunni FISHupdate segir að verðið á stærstu ýsunni hafi farið í yfir 3 pund, eða rúmlega 600 kr., fyrir kílóið sem er nær tvöfalt hærra verð en fékkst fyrir hana fyrir tveimur vikum. Verðþróunin í þorskinum hafi verið svipuð.

Á markaðinum í Grimsby voru seldir 3.200 kassar af ýsu frá Íslandi í gærdag og á markaðinn í Hull komu 1.600 kassar. Ekki er reiknað með miklu framboði af fiski frá Íslandi á þessa markaði það sem eftir er vikunnar.

Einn af fiskkaupendunum á markaðinum í Grimsby segir í samtali við FISHupdate að hann hafi ekki séð jafnhátt verð á ýsunni í langan tíma. „Menn hafa áhyggjur af því að minnkun ýsukvótans á Íslandi um 30.000 tonn á þessu fiskveiðaári muni hafa áhrif á verðið," segir kaupandinn. „Þetta er mun meiri niðurskuður en menn áttu von á."

En það eru fleiri ástæður að baki þessum miklu hækkunum að sögn FISHupdate. Þær helstu að slæmt veður hefur hindrað veiðar heimamanna, og þá sérstaklega ýsuveiðarnar. Þar að auki hafa fengist góð verð fyrir ýsuna á mörkuðum á Íslandi sem hefur dregið úr framboðinu á Bretlandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×