Viðskipti innlent

Útlendingar áhugalitlir um kaup á ríkisvíxlum og bréfum

Útlendingar hafa undanfarið verið áhugalitlir um útboð ríkisvíxla og -bréfa en áhugi innlendra aðila á slíkum bréfum hefur verið þeim mun meiri.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að Seðlabankinn sendi nýverið frá sér yfirlit yfir lánamál ríkisins og kemur þar fram að útboði ríkisvíxla um miðjan síðasta mánuð keyptu útlendingar aðeins um 0,7 milljarða kr. af þeim 10 milljörðum kr. sem seldir voru í útboðinu.

Erlendir fjárfestar héldu sig svo alfarið frá útboði tveggja lengstu ríkisbréfaflokkanna, RIKB13 og RIKB19. Er það í takti við lítinn áhuga útlendinga á skuldabréfaflokkum með langan líftíma undanfarið. Erlendir fjárfestar hafa þó verið nokkuð virkir kaupendur á eftirmarkaði með ríkisbréf og -víxla, og er talið að þeir eigi verulegan hluta af stystu ríkisbréfaflokkunum, innstæðubréfum Seðlabankans og útistandandi ríkisvíxlum.

Hefur áhugi útlendinga á ríkisvíxlum t.a.m. aukist töluvert frá því fyrst eftir að útgáfa þeirra var hafin að nýju í desember síðastliðnum. Erlendir aðilar eiga einnig allháar fjárhæðir í innistæðum í íslenskum fjármálastofnunum.

Samkvæmt Seðlabanka voru innlendir bankar, verðbréfasjóðir og viðskiptavinir eignastýringar bankanna atkvæðamestir í ríkisbréfaútboðinu og fyrrnefndu aðilarnir tveir keyptu raunar einnig nærri tvo þriðju hluta ríkisvíxlanna í útboðinu um miðjan febrúar.

Fyrir innlenda fjárfesta eru ríkistryggð skuldabréf álitlegur kostur þessa dagana, enda ekki í mörg önnur hús að venda. Hlutabréfamarkaðurinn er vart svipur hjá fyrri sjón, skuldabréfaútgáfa banka og stærri fyrirtækja hefur engin verið undanfarna mánuði og erlend verðbréfakaup eru óheimil undir núverandi gjaldeyrishöftum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×